Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm ár liðin frá hryðjuverkaárásinni í Nice

epa05426867 Flowers, flags, and candles lie in front of the French embassy as a tribute to the victims of the 14 July attacks in Nice, in Berlin, Germany, 15 July 2016. According to reports, at least 84 people died and many were wounded after a truck
 Mynd: epa
Frakkar minnast þess í dag að fimm ár eru liðin frá hryðjuverkaárás í borginni Nice sem varð 86 manns að bana. Hryðjuverkaógnin er enn viðvarandi í landinu.

Að kvöldi Bastilludagsins, þjóðhátíðardags Frakka, árið 2016 ók Mohamed Lahouaiej-Bouhlel flutningabíl inn í mannþröng og varð 86 að bana, þar af tíu börnum.

Nærri fimmhundruð slösuðust í árásinni sem íslamska ríkið lýsti síðar ábyrgð á. Árásarmaðurinn féll í skotbardaga við lögreglu. Evrópumótinu í knattspyrnu var nýlokið og stór hópur Íslendinga var í borginni skömmu áður. 

Í um áratug hefur Frakkland verið skotmark íslamskra öfgasinna, ráðist var á skrifstofur skopmyndablaðsins Charlie Hebdo árið 2015 og eitthundrað og þrjátíu féllu í sprengju- og skotárásum í París í nóvember sama ár.

Í október, eftir að kennari sem sýndi nemendum sínum skopmyndir Charlie Hebdo af Múhammeð spámanni var myrtur lýsti Emmanuel Macron forseti því yfir að árás á Frakkland stæði yfir. 

Undanfarna átján mánuði hefur leyniþjónustu Frakklands tekist að koma í veg fyrir fimm árásir öfgamanna en sjö sinnum hefur árásarmönnum tekist ætlunarverk sitt.

Frá árinu 2014 hafa tvöhundruð sextíu og fjögur farist í hryðjuverkaárásum í Frakklandi og ríflega tólf hundruð særst. Það er meira en í öðrum vestrænum ríkjum.

Umdeilt lagafrumvarp sem á að auðvelda stjórnvöldum að sporna við og koma í veg fyrir hryðjuverk eru enn til umræðu í franska þinginu. Andstæðingar frumvarpsins segja ýmis ákvæði þess geta ýtt undir andúð á öllum múslímum í landinu.  

Frakkar hafa þó aukið mjög viðbúnað vegna hryðjuverkaógnarinnar, auknu fé er varið til að styrkja her og lögreglu og ýmis lög hafa verið sett svo fella megi dóma hraðar yfir þeim sem fremja ódæðisverk í landinu.