„Ég var miklu týndara en ég er núna“

Mynd: Reyn Alpha / Aðsend

„Ég var miklu týndara en ég er núna“

14.07.2021 - 14:00

Höfundar

Reyn Alpha Magnúsar er kynsegin og eikynhneigð manneskja sem hefur aldrei laðast kynferðislega að öðrum, og upplifir sig hvorki sem strák né stelpu. Hán segir létti að átta sig á sjálfu sér og samþykkja, en enn sé sárt að lesa umræður í kommentakerfum þar sem rökrætt sé um tilvist sína.

Til þess að geta elskað annað fólk er mikilvægt að þykja alla vega ansi vænt um sjálfan sig, það er að minnsta kosti speki bandarísku dragdrottningarinnar RuPaul. En til að elska sig þarf að þekkja sig og það getur verið snúin vegferð. Í Ástarsögum á Rás 1 sagði Reyn Alpha Magnúsar frá því hvernig hán uppgötvaði sjálft sig með tímanum og komst á þann stað að líða vel í eigin skinni, jafnvel elska sig.

Fyrsta barnið sem lærði að lesa og þekkti alla þjóðfána

Reyn kveðst alltaf hafa verið öðruvísi og að flestir hafi tekið eftir því þegar hán var á barnsaldri að hán skar sig úr barnafjöldanum varðandi til dæmis gáfur og áhugamál. Hán lærði til dæmis að skrifa og lesa snemma á leikskólaaldri. „Ég held ég hafi ekki gert mér grein fyrir því að ekki allir krakkarnir á leikskólanum þekktu alla þjóðfána heims með nafni, heilsuðu brunahönum úti á götu og léku sér að því að raðtengja fjöltengi um alla íbúð,“ rifjar hán upp. Um sex ára aldurinn var hán greint á einhverfurófi. „Ég held það hafi ekki komið mörgum á óvart, það bara útskýrði ýmislegt,“ segir Reyn. „Ég er mjög fegið að hafa fengið þá greiningu, það hefur hjálpað mér mjög mikið.“

Vissi ekki hvort hán væri samkynhneigt

Hán er kynsegin en segist fyrst hafa uppgötvað kynhneigð sína. Í grunnskóla þegar hán var komið í gagnfræðiskóla segist hán ekki hafa verið eitt af vinsælu krökkunum, en hán átti fínan vinahóp, sem þó talaði ekki á djúpum nótum um persónlega hluti. Eins og fylgir unglingsaldrinum fer að bera á hugsunum um kynlíf og unglingar laðast hver að öðrum, en hán fann aldrei fyrir neinu slíku og vegna þess að það kom ekki til tals í vinahópnum pældi hán lítið í því. „Það kom stundum fyrir að annað fólk væri að pæla í því hvar ég stæði, ég var frekar lokað gagnvart öðru fólki og oft spurt hvort ég væri samkynhneigt,“ segir hán sem kveðst ekki hafa getað svarað spurningunni, því hán hafði ekki hugmynd. „Ég skildi ekki hvernig fólk vissi það.“

Enginn útskýrði hvernig maður laðaðist að öðrum

Á öðru ári í framhaldsskóla kynntist hán fólki í gegnum internetið og í samræðum um hinseginleika kveðst hán ekki vita hvort hán væri hinsegin, það hefði ekki angrað sig áður, en hán átti góðar og upplýsandi samræður. Í einum þeirra kemur upp úr dúrnum að fólk laðist að öðru fólki kynferðislega, og þá áttaði hán sig á því að hán tengdi ekkert við það. „Ég hafði aldrei heyrt það áður, það var bara gert ráð fyrir að fólk vissi það en það var aldrei útskýrt.“ Reyn tók sig til og las sér til um kynhvöt, kynferðislega aðlöðun, rómantíska hrifningu og komst að því að hán er í raun eikynhneigt. „Ég hafði ekki gert mér grein fyrir að það liði ekki öllum svona.“

Hvergi á rófinu heldur alveg í núlli

Eikynhneigð er hugtak sem vísar til þess að laðast aldrei eða nær aldrei kynferðislega að öðru fólki. Það getur verið róf þar sem fólk upplifir stundum kynferðislega aðlöðun og stundum ekki. Reyn útskýrir að það sé enn fremur hægt að vera demisexúal þar sem fólk upplifir bara aðlöðun gagnvart fólki sem það hefur kynnst nú þegar og á í tilfinningalegum tengslum við. „Ég persónulega er bara eikynhneigt, bara alveg í núlli.“

„Mitt stökk inn í hinsegin samfélagið“

Uppgötvun um eigin eikynhneigð fylgdi mikill léttir og ánægja hjá Reyn. „Ég mætti í skólann daginn sem ég komst að þessari niðurstöðu og það var létt yfir öllu. Ég talaði við vinkonu mína sem hafði stundum verið pínu vandræðalegt að tala við, en mér leið bara vel og það gekk frábærlega.“ Það var sól og blíða þennan dag og eftirvænting í loftinu. „Þetta var mitt stökk inn í hinsegin samfélagið.“

Eftir þetta kveðst Reyn hafa fundið fyrir sátt við sjálft sig yfir að hafa kynnst sjálfu sér betur. En það vantaði enn einhverja bita í púslið. Hægt og rólega fór hán að uppgötva að hán væri kynsegin. „Það sem gerist hægt og rólega næstu mánuði er að ég fer að pæla meira í þessu. Ég fór að andmæla því þegar fólk notaði kynjuð orð yfir mig, án þess að gefa eitthvað frekar út um það.“

„Maður getur aldrei verið bara manneskja“

Sumarið 2019 fór Reyn í sumarbústað með fjölskyldunni og áttaði sig á því að hán tengdi ekki við að vera strákur, og hafði aldrei gert það. „Ég tók því bara því mér var sagt það. Samt var ég meðvitað um kynsegin og trans fólk, eins lengi og ég man,“ segir hán.

Reyn fór að átta sig betur á því hve kynjað tungumálið er, og það fór að fara í taugarnar á háni. „Maður getur aldrei verið bara manneskja, þú ert alltaf sonur, dóttir, bróðir, systir, mamma og pabbi. Strákar og stelpur. Ég vildi bara vera manneskja.“

Eftir rúman mánuð byrjaði fjörið fyrir alvöru

Reyn og móðir háns fóru saman í búðarferð að skoða litrík föt fyrir Gleðigönguna þegar móðir háns spyr hvort hán sjái fyrir sér að taka sjálft þátt í atriði í göngunni. Þá ákvað hán að nýta tækifærið og koma út úr skápnum fyrir móður sinni sem eikynhneigt og kynsegin. „Ég var enn á þeim stað að ég ætlaði ekki að láta það breyta neinu, svo ég gerði ekki mikið mál úr því, sagði bara að ég væri hvorki karl né kona. Svaraði spurningum um það og það fór ekki lengra,“ rifjar Reyn upp. „En það var ekki nema rétt rúmur mánuðir þar til fjörið byrjaði fyrir alvöru.“

Hán tók þátt í sinni fyrstu gleðigöngu 2019 og kom út sem hinsegin gagnvart fjölskyldunni með því að setja myndir úr göngunni á Facebook. Í kjölfarið tók hán eftir því hve sárt það varð að vera miskynjað. „Ég fór að upplifa kynama.“

Sárt þegar hópurinn var kallaður „strákar“

Reyn var á þessum tíma á tölvubraut í Tækniskólanum og segir að samfélagið í kringum hán hafi verið mjög karllægt. „Ég var oft bara með strákum í tímum, sem gerði það að verkum að kennararnir kölluðu hópinn strákar,“ segir Reyn. „Ég held að það hafi verið það sárasta.“

Það tók á að vera rangkynjað og Reyn ákvað að skrifa móður sinni ítarlegt bréf þar sem hán fór yfir stöðuna og líðan sína. „Þá fór boltinn að rúlla og við fórum að gera eitthvað í málunum,“ segir hán. Næst á dagskrá var að máta við sig ný nöfn og hán prófaði tvö áður en hán komst að því að Reyn Alpha ætti best við sig. Hán fór í greiningarferli hjá trans teymi Landspítalans, ráðgjöf til Samtakanna '78 og tekur í dag þátt í hinum ýmsu félagsstörfum hinsegin fólks.

Ótvíræðar framfarir

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Reyn byrjaði að uppgötva sjálft sig. „Ég er öruggara með sjálft mig, hver ég er og hvað ég vil. Ekki þó þannig að ég sé með öll svörin og viti allt upp á hár, ég á oft í erfiðleikum með að greina hvernig mér líður og hvað ég vil. Ég þarf oft aðstoð við það. En framfarirnar eru ótvíræðar.“

Erfitt að lesa gamlar dagbækur

Reyn skrifaði mikið á þeim tíma sem háni leið hve verst og í dag segir hán stundum erfitt að lesa það. „Ég var miklu týndara en ég er núna, en er þó ekki að segja að ég sé alveg fundið. Það er ýmislegt sem ég er enn óvisst um og þætti gott að fá á hreint.“

Ferlið var flókið og erfitt og Reyn kveðst ekki ljúga því að neinum að allt hafi gengið smurt. „En þetta var nauðsynlegt. Ég er á svo miklu betri stað en ég var og veit betur hvað ég vil í lífinu. Ég hef eignast vini og kunningja sem eiga margt sameiginlegt með mér, það var ekki alltaf þannig áður,“ segir hán. „Ég hef fengið að taka þátt í stjórnun félaga og samtaka sem hafa áhrif á hluti sem mér finnst skipta máli. Þó svo það sé að mörgu leyti langt í land þá sést alla vega til þess.“

Hán segir enn sérstakt að verða vitni að því að fólk, ekki síst í kommentakerfum, sjái sig knúið til að efna til rökræða um tilvist sína. „Ég held það þurfi ekki meiri rök en þau að ég er hérna, ég er til og við erum eflaust fleiri en margir halda. Þú veist aldrei hvort einhver nákominn þér sé trans eða hinsegin.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Reyn Alpha Magnúsar í Ástarsögum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Erfitt að skilja hvers vegna hún púkkaði upp á mig“