Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Á von á að umgengnisreglur verði hertar

14.07.2021 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Farsóttarnefnd Landspítalans fylgist náið með þróun kórónuveirufaraldursins og er tilbúin að herða umgengnisreglur spítalans ef þarf.

Verkefnastjóri farsóttanefndarinnar segir meiri líkur en minni á að það verði gert á næstu dögum.

Þá segist hún ekki eiga von á því að heimsóknarreglur verði nokkurn tímann jafnslakar og þær voru fyrir faraldurinn.

Hjúkrunarheimili verði á varðbergi

Fimm greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær og voru allir utan sóttkvíar. Síðustu daga hafa um þrír til fimm smitaðir komið til landsins á degi hverjum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í hádegisfréttum að þróunin síðustu daga minnti óþægilega mikið á byrjun þriðju bylgju faraldursins í haust þótt munurinn sé auðvitað að enginn hafi þá verið bólusettur.

Hvatti Þórólfur hjúkrunarheimili til að vera sérstaklega á varðbergi og skerpa á umgengnisreglum sínum.

Fylgjast grannt með stöðunni

Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttarnefndar Landspítalans, segir í samtali við fréttastofu að nefndin fylgist grannt með þróun faraldursins.

Umgengnisreglur spítalans tóku síðast breytingum 1. júlí og þá til tilslökunar.

Heimsóknartímar spítalans eru enn takmarkaðir, aðeins mega tveir gestir heimsækja sjúkling í einu og allir gestir þurfa að bera grímu.

Sérstakar reglur gilda enn fremur um starfsfólk sem kemur bólusett frá útlöndum. Það getur mætt strax til vinnu en þarf þá að bera grímu og halda sig til hlés þar til niðurstaða sýnatöku liggur fyrir.

Hildur segir að ef ákveðið verði að herða reglur á spítalanum verði síðastnefnda atriðið fyrst til að taka breytingum. „Við myndum þá herða reglurnar og ekki leyfa starfsfólki [sem kemur frá útlöndum] að mæta til vinnu fyrr en niðurstaða sýnatöku liggur fyrir,“ segir Hildur.

Aldrei alla leið til baka

Hildur segir að heimsóknarreglur Landspítalans fyrir kórónuveirufaraldurinn hafi verið sérstaklega rúmar og ólíkar því sem þekkist erlendis. Hún á ekki von á að reglurnar verði nokkurn tímann jafnslakar og þær voru þá.

„Fólk sem liggur á spítala í dag er yfirleitt þar í stuttan tíma og ekki alltaf í ástandi til að taka á móti mikið af fólki. Ég á von á að reglurnar verði [eftir Covid] slakari en núna, en þó ekki þannig að hver sem er geti komið í heimsókn hvenær sem er.“

Frjálsar heimsóknir á hjúkrunarheimilum

Á hjúkrunarheimilum landsins hefur öllum takmörkunum á heimsóknir víðast hvar verið aflétt. Þó gilda oft harðari takmarkanir um starfsmenn sem koma heim frá útlöndum.

Þeir þurfa, rétt eins og á Landspítalanum, að fara í sýnatöku og bera grímu og hanska í vinnunni þar til niðurstaða sýnatökunnar liggur fyrir.