Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

8 dagar í Ólympíuleikana - Óbætanlegu heimsmet Flo-Jo

Mynd með færslu
 Mynd: IOC

8 dagar í Ólympíuleikana - Óbætanlegu heimsmet Flo-Jo

14.07.2021 - 11:02
Ólympíuleikarnir verða settir í Tókíó í Japan eftir 8 daga. Í aðdraganda leikanna rifjum við því upp nokkur eftirminnileg augnablik í sögu leikanna. Í dag er komið að spretthlauparanum Florence Griffith-Joyner og árangri hennar á Ólympíuleikunum í Seoul árið 1988.

Florence Griffith-Joyner, eða Flo-Jo, er einn skrautlegasti keppandi sem nokkurn tíman hefur sést á hlaupabrautum Ólympíuleika. Hún fæddist í Los Angeles í Kaliforníu árið 1959 og var ung farin að keppa í frjálsum íþróttum. Hún náði lágmarki fyrir leikana í Moskvu árið 1980 en vegna sniðgöngu Bandaríkjanna fékk hún ekki að taka þátt.

Ólympíufrumraun hennar varð því á heimavelli í Los Angeles árið 1984 þar sem hún nældi í silfurverðlaun. Árið 1988 varð Flo-Jo svo hraðasta kona heims, nafnbót sem hún hefur haldið í allar götur síðan.

Heimsmet í 100 metra hlaupi á úrtökumóti

Flo-Jo mætti til leiks á úrtökumóti Bandaríkjanna fyrir Ólympíuleikana í júlímánuði árið 1988. Hún hljóp 100 metrana á 10,60 sekúndum og 10,49 sekúndum í tveimur undanrásum og stórbætti heimsmet Evelyn Ashford sem var 10,76 sekúndur. Einhverjar efasemdir voru varðandi vindmælingar á brautinni en metið stóð. 

Daginn eftir vann hún undanúrslitin á tímanum 10,70 sekúndum og hljóp á 10,61 sekúndum í úrslitum. Þar með hafði hún hlaupið þrjá hröðustu tíma sögunnar á innan við 24 klukkustundum og áður en úrtökumótið kláraðist hljóp hún líka 200 metrana á nýju bandarísku meti. „Heimsmetið mun koma í Seoul,“ sagði hún. 

Leikarnir í Seoul 1988

Og metið kom svo sannarlega. Flo-Jo nældi sér í gull í 100 og 200 metra hlaupi  sem og 4x100 metra boðhlaupi en silfur í 4x400. Hún bætti Ólympíumetið í 100 metrum tvisvar og var farin að brosa eftir 40 metra í úrslitahlaupinu, svo mikla yfirburði hafði hún. 200 metra heimsmetið féll svo bæði í undanúrslitunum og úrslitunum sjálfum þar sem hún hljóp á 21,34 sekúndum. 

Flo-Jo og bandaríska boðhlaupssveitin rúlluðu svo upp 4x100 metra boðhlaupinu en einu vonbrigði leikanna, ef vonbrigði mætti kalla, var silfurmedalían í 4x400 metra boðhlaupinu sem Flo-Jo hafði verið valin í með 48 klukkustunda fyrirvara. 

Lyfjamál og efasemdir

Umræða um frammistöðubætandi lyf var hávær á leikunum í Seoul og margir beindu sjónum sínum að Flo-Jo sem hafði náð undraverðum árangri á stuttum tíma. Hún tók 11 lyfjapróf sem komu öll neikvæð til baka og þverneitaði fyrir að taka inn nokkurs konar frammistöðubætandi lyf, fulltrúar Alþjóða lyfjaeftirlitsins mættu þess vegna koma og taka próf á henni í hverri viku. 

Þrátt fyrir neikvæð próf hélt fólk áfram að efast um að árangurinn hefði getað náðst án einhverrar utanaðkomandi aðstoðar. Þá var helst bent á líkamlegan vöxt Flo-Jo, vöðva sem þóttu óvenjulega stórir og röddina, sem margir vildu meina að hefði dýpkað, líkt og gerist þegar fólk notar stera. 

Gaddaskórnir á hilluna og ótímabær dauðdagi

Það kom öllum á óvart þegar Flo-Jo ákvað að leggja hlaupaskóna á hilluna árið 1989, aðeins 29 ára gömul. Þetta tilkynnti hún stuttu áður en handahófskenndar lyfjaprófanir komu í gagnið sem mörgum þótti fullmikil tilviljun. 

Eftir að hún hætti að hlaupa fór hún að hann fatnað en keppnisgallar hennar og langar neglur höfðu lengi vakið athygli. Hún skrifaði sömuleiðis ástasögur og barnabækur, stofnaði snyrtivörufyrirtæki og gaf út fitnes myndbönd svo eitthvað sé nefnt. Árið 1998, þá 38 ára gömul, lést hún svo skyndilega eftir að hafa fengið flogakast í svefni. Eiginmaður hennar, Al Joyner, lét kanna lík hennar fyrir ummerkjum um steranotkun en ekkert fannst. 

Óbætanleg met?

Þrátt fyrir að síðasta lyfjapróf Flo-Jo bæri engin merki um lyfjanotkun hefur fólk enn efasemdir um heimsmet hennar. Efasemdir sem byggja helst á því að engin kona hefur verið nálægt því að hlaupa 100 og 200 metrana hraðar, eða einu sinni jafn hratt, og Flo-Jo gerði. Hún á enn þrjá bestu tíma sögunnar í 100 metra hlaupi og tvo bestu tímana í 200 metrunum. 

Jamaíska hlaupakonan Shelly-Ann Fraser-Pryce hefur komist næst henni í 100 metrunum en hún hljóp nýlega á tímanum 10,63 sem er þó enn 0,14 sekúndubrotum frá heimsmetinu. Þá hljóp Gabrielle Thomas 200 metrana á 21,61 á Ólympíuúrtökumóti Bandaríkjanna í júní. Fraser-Pryce og Thomas verða báðar meðal keppenda í Tókýó. 

Tengdar fréttir

Sund

9 dagar í ÓL - Gullmaðurinn Mark Spitz

Ólympíuleikar

10 dagar í Ólympíuleikana í Tókíó