„Það er til brekkusöngur og brekkusöngurinn með greini“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Það er til brekkusöngur og brekkusöngurinn með greini“

13.07.2021 - 11:05

Höfundar

Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins frá Selfossi, segist hlakka mjög til að stýra Brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Hann segist þó hafa þurft að hugsa sig aðeins um áður en hann ákvað að slá til. 

Ingólfur Þórarinsson stýrði brekkusöngnum í Herjólfsdal frá árinu 2013 en nýverið var ákveðið að hann gerði það ekki í kjölfar fjölda ásakana um kynferðisofbeldi og áreitni.

Hann tók við af Árni Johnsen sem stýrði söngnum frá 1978 til 2012 að undanskildu árinu 2003 þegar Robert Marshall leysti hann af. Þjóðhátíðarnefnd hafði samband við Magnús í síðustu viku. 

„Ég ræddi þetta við konuna og mína bestu vini og trúnaðarmenn. Þau sögðu bara jájá skelltu þér bara í þetta. Ég veit ekki hvort ég var beint efins en maður hugsaði sig vissulega um hvort væri gaman að taka við þessu við þessar aðstæður. En svo bara ákvað ég að skella mér á þetta.“

Magnús segist hafa grófa hugmynd um hvað verði á efnisskránni sunnudagskvöldið 1. ágúst. Málið sé að finna lög sem allir tuttuguþúsund gestirnir í dalnum geti sungið með. 

„Hún vissulega gæti alveg þess vegna tekið breytingum þangað til klukkan kortér fyrir ellefu á sunnudagskvöldi á þjóðhátíð. Það er svona ákveðin beinagrind sem að ég er kominn með. Þetta er ekki mitt móment, þetta er móment fólksins. Fólkið verður bara að fá það sem það vill fá.“ 

Hann segist hlakka mjög til brekkusöngsins en hann hefur stýrt sléttusöngnum á Selfossi undanfarin ár þar sem um tólf þúsund söngraddir taka undir. „Það er nefnilega engin brekka á Selfossi.“

Magnús hefur um árabil verið eftirsóttur trúbador auk þess sem hann hefur spilað með hljómsveit sinni víða um land. Hann hefur meðal annars komið fram á Þjóðhátíð óslitið síðan 2016.

Magnús segir að ekki liggi fyrir hvort framhald verði á því að hann stýri brekkusöngnum.  „Það er til brekkusöngur og svo er til brekkusöngurinn með greini. Þetta er greinirinn sko.“

Tengdar fréttir

Innlent

Magnús Kjartan stýrir Brekkusöngnum

Innlent

Ingó kemur ekki fram á Þjóðhátíð í Eyjum