Stórir ferðavagnar fylla tjaldstæði

13.07.2021 - 15:53
Íslendingar hafa flykkst norður og austur síðustu tvær vikur til að njóta veðurblíðunnar. Margir eru með stóra ferðavagna í eftirdragi sem fylla tjaldstæðin fljótt. Þau taka nú orðið færri gesti en þau voru upphaflega hönnuð fyrir. 

Koma færri gestum á tjaldsvæðin

Í fyrrasumar var met slegið í sölu ferðavagna og nýting tjaldsvæða hefur því tekið breytingum í samræmi við það. Tryggvi Marinósson forstöðumaður tjaldsvæðanna á Akureyri hefur ekki farið varhluta af þróuninni.

„Við komum miklu færri á tjaldsvæðið heldur en við höfum gert áður. Við komum hér núna kannski á Hömrum, sem er risastórt ekki nema með góðu móti rúmlega 2000 manns en við höfum verið að taka 3000-3500 og jafnvel upp í 4000 á meðan menn voru með minni einingar. Þetta er orðið rosastórt sem menn taka plássið,“ segir Tryggvi Marinósson.

Er tjaldstæði réttnefni?

Hlýindin á Norður- og Austurlandi hafa dregið fjölda ferðamanna norður. Það er þó spurning hvort tjaldstæði sé réttnefni því það er lítið af tjöldum á svæðinu á Hömrum við Akureyri sem er stærsta tjaldsvæðið á Norðurlandi, heldur er þar allt fullt af stórum hjólhýsum og fellihýsum.

Ánægðir með aðstöðuna

Tjaldgestir segjast mjög ánægðir með aðstöðuna á Hömrum og vildu ekki kvarta undan aðstöðuleysi. Þeir segja þó að það sé betra að koma snemma til að vera viss um að komast í rafmagn.

„Við komum hérna í algjöru panikki frekar seint og ekki viss um að fá rafmagn svo við vorum svolítið lengi að ná rafmagni og völdum ekkert svakalegan góðan stað fyrir sólina. Við erum eiginlega búin að vera í skugga allan tímann en við færum okkar bara annað í sólbað þegar sólin er,“ sögðu mæðginin Andri Már Guðmundsson og Hekla Daðadóttir sem voru á tjaldsvæðinu á Hömrum.

Þarf meira rafmagn

Þar sem flestir eru með stór hýsi sem þurfa rafmagn er rafmagnsþörfin á tjaldsvæðum alltaf að aukast. Tryggvi segir að fjölga þurfi mjög rafmagnstengingum.

„En við getum ekki fjölgað nema að fá nýja spennistöð og allt mögulegt. Við erum að byggja nýjar tjaldflatir og í tengslum við það þarf að auka rafmagnið hér upp frá og svo koma rafmagnsbílarnir, það verður að fara í að auka það. Þetta er eins og sveitarfélag,“ segir Tryggvi.
  
Tryggvi vildi þó ekki meina að þau á tjaldsvæðinu á Hömrum væru búin að fá nóg af gestum. „Nei, við fáum aldrei nóg af gestum og allir velkomnir!“