Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Selfoss blandar sér í toppbaráttuna

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Selfoss blandar sér í toppbaráttuna

13.07.2021 - 21:06
Selfoss vann Keflavík með einu marki gegn engu í lokaleik tiundu umferðar í efstu deild kvenna í kvöld. Yfirburðir heimakvenna voru talsverðir í leiknum þrátt fyrir að mörkin væru ekki fleiri.

Einn leikur fór fram í efstu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Á Selfossi tóku heimakonur á móti Keflavík. Fyrir leik sat Selfoss í fjórða sæti deildarinnar en Keflavík í því áttunda. Heimakonur voru öflugri til að byrja með en Keflavík ógnaði oft á tíðum með föstum leikatriðum. Fyrsta mark leiksins kom á 41. mínútu en þá átti Barbára Sól Gísladóttir góða sendingu á Brenna Lovera sem kláraði færið vel og kom Selfyssingum yfir.

Staðan var 1-0 þegar komið var að hálfleiknum en í síðari hálfleik voru yfirburðir Selfyssinga miklar án þess þó að liðið náði að skapa sér hættuleg færi. Leiknum lauk því með 1-0 sigri Selfoss og liðið fer því upp í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig.