Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ruslasafn heimiliskattar til sýnis á Hornafirði

Mynd: Margrét Blöndal / RÚV
Kisan Birta, sem býr á Höfn í Hornafirði, á sérstakt áhugamál. Kisan plokkar rusl og hluti sem hafa verið skildir eftir eftirlitslausir í gríð og erg og nú hefur verið opnuð sýning með afrakstrinum í Menningarmiðstöð Hornafjarðar.

Á 16 mánaða tímabili hefur Birta dregið heim ýmislegt dót sem fyllir orðið marga ruslapoka. Stefanía Hilmarsdóttir, eigandi Birtu, safnaði öllu saman og hafði loks samband við Menningarmiðstöð Hornafjarðar og stakk upp á því að sýna góssið.

Eyrún Helga Ævarsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, vissi ekki alveg hvernig hún átti að taka hugmyndinni til að byrja með. „Þetta þurfti smá spekúleringar,“ sagði Eyrún Helga í samtali við Margréti Blöndal í Sumarmálum á Rás 1 því það þurfti að huga að ýmsu. „Það voru vangaveltur um hvernig við setjum upp sýningu með rusli sem er búið að plokka úti í náttúrunni eða af byggingasvæðum?“

Mynd með færslu
 Mynd: Margrét Blöndal - RÚV
Eins og sjá má er safnið hennar Birtu ansi tilkomumikið

Eftir að hafa lagt hausinn í bleyti fundu þær leið til að sýna safnið hennar Birtu og sett var upp sýning þar sem sjá má myndir af kisunni og dótið sem hún hefur dregið heim.

„Sýningin vekur gleði og undrun og bara allar tilfinningar,“ segir Eyrún. Þetta er svo skemmtilegt viðfangsefni og ég dáist líka að henni Stefaníu að safna þessu öllu upp, að láta þetta ekki bara flakka.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Margrét Blöndal - RÚV
Á sýningunni má sjá mynd af ferðum Birtu en á einum degi ferðaðist hún tæpa níu kílómetra

Áhugasamir geta hlustað á viðtalið við Eyrúnu Helgu í Sumarmálum í spilaranum hér að ofan þar sem hún segir frá menningarlífinu í Hornafirði. Spjallið um hamstrarann Birtu byrjar á elleftu mínútu. Einnig er hægt að fylgjast með Birtu og sjá hvað hún dregur með sér heim á Facebook.

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV