Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Rafskutlum líklega fækkað um 70 prósent í Osló

13.07.2021 - 06:29
epa06886482 Bird electric scooters await customers in downtown Washington, DC, USA, 13 July 2018. The 2 billion US dollar startup, whose electric scooters are largely manufactured in China, could become collateral damage in President Trump's trade war, as a second round of US tariffs on Chinese goods goes into effect.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Oslóarbúar hafa fengið sig fullsadda af rafskutlum sem skildar eru eftir á víð og dreif um gangstéttar borgarinnar Mynd: EPA-EFE - EPA
Borgarstjórn Oslóar mun að öllum líkindum samþykkja að fækka skuli rafskutlum á götum borgarinnar um 68 prósent frá því sem nú er. Greidd verða atkvæði um tillögu þessa efnis á aukafundi borgarstjórnar, sem boðað var til sérstaklega af þessu tilefni. Könnun sem gerð var meðal Norðmanna leiddi í ljós að nær 70 prósent Oslóarbúa vilja banna rafskutlur - eða rafskútur - alfarið á götum og gangstéttum borgarinnar. Rétt rúmur helmingur allra Norðmanna, 52 prósent, er á sömu skoðun.

Varað var við því fyrir nokkru, segir í frétt NRK, að rafskutlunum sem standa borgarbúum til boða gegn gjaldi hér og þar og alls staðar um borgina, yrði fækkað verulega.

Liggja eins og hráviði um allt

Ýmsar ástæður eru fyrir óánægju Oslóarbúa með þessi farartæki, en allra helst sú tilhneiging þeirra sem þau nýta að hugsa ekkert um hvar þau skilja þau eftir. Því liggja skutlurnar eins og hráviði fyrir hunda og manna fótum, valda slysahættu og trufla umferð gangandi, hjólandi og ekki síst vegfarenda sem nota hjólastól.

Nýju reglurnar taka ekki formlega gildi fyrr en í ágúst, en borgarfulltrúinn Raymond Johansen fer fram á að byrjað verði að framfylgja þeim tafarlaust. Á vef NRK segir að í Osló séu nú fleiri rafskutlur en nokkurri annarri evrópskri borg miðað við höfðatölu. Þeim hafi fjölgað um næstum fjórðung á síðustu þremur mánuðum og séu nú um 25.000 talsins.