Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikilvægur sigur hjá Fylki

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Mikilvægur sigur hjá Fylki

13.07.2021 - 19:54
Fylkir vann afar mikilvægan sigur á KA í efstu deild karla í fótbolta fyrr í kvöld. Fylkismenn voru betri stóran hluta leiks og komust í 2-0 áður en Hallgrímur Mar minnkaði muninn fyrir KA. Undir lok leiks gerði KA harða atlögu að marki Fylkis í leit að jöfnunarmarki en án árangurs.

Fylkir tók á móti KA á heimavelli sínum fyrr í kvöld. Fylkismönnum hefur gengið illa að undanförnu og liðið hefur sogast niður í fallbaráttuna. KA byrjaði mótið afar vel en hefur aðeins fatast flugið að undanförnu og var án sigurs í síðustu þremur deildarleikjum fyrir leik kvöldsins. 

Miðað við byrjun leiksins var alveg ljóst að Fylkir ætlaði að rífa sig frá fallbaráttunni. Liðið byrjaði vel og átti nokkrar álitlegar sóknir áður en þeir brutu ísinn á 31. mínútu. Djair Parfitt-Williams átti þá skot í stöngina og þaðan barst boltinn á Orra Svein Stefánsson sem stýrði honum í netið. Þetta var eina mark fyrri hálfleiks. 

Fylkir var áfram betra liðið í síðari hálfleiks og KA náði sjaldan að ógna marki Fylkis. Á 59. mínútu var komið að öðru marki heimamanna. Orri Hrafn Kjartansson lék þá listir sínar fyrir utan vítateig KA áður en að smellti boltanum í netið og staðan orðin 2-0.

Aðeins fimm mínútum eftir að Fylkir komst í 2-0 náði KA að minnka muninn. Hallgrímur Mar Steingrímsson átti þá skot sem fór af varnarmanni Fylkis og í netið og staðan orðin 2-1 þegar um 35 mínútur voru eftir af leiknum. Eftir markið lifnaði yfir KA sem sóttu hart að marki Fylkis í kjölfarið. KA var nálægt því að jafna þegar að fjórar mínútur voru eftir af leiknum en þá áttu þeir skalla í stöng. Á 95. mín voru KA-menn aftur nálægt því að jafna þegar Sebastian Brebels átti hörkuskot í stöngina. Í nánast sömu andrá var flautað til leiksloka og Fylkir vann því leikin með tveimur mörkum gegn einu.