Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kórónuveirusmitum fjölgar í Danmörku

epa08338984 A medical doctor performs af mouth swab on a patient to be tested for novel coronavirus disease (COVID-19) in a new tent extension of the Danish National Hospital Rigshospitalet in Copenhagen, Denmark, 02 April 2020.  EPA-EFE/NIELS CHRISTIAN VILMANN  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Ritzau-Scanpix
Kórónuveirufaraldurinn er í vexti í Danmörku ef marka má smitstuðulinn sem er kominn upp í 1,3 þar í landi. Danska heilbrigðisráðuneytið greinir frá þessu og að hlutfall delta-afbrigðisins hækki sífellt. 

Smitstuðull eða R-talan svokallað segir til um hve marga hver og einn smitaður er líklegur til að smita að meðaltali. Nú eru hverjir tíu smitaðir Danir líklegir til að smita þrettán aðra.

Í síðustu viku greindu heilbrigðisyfirvöld frá því að rúm 55% nýrra tilfella væru af delta-afbrigðinu sem er meira smitandi en önnur. 

Undanfarna daga hefur nýjum smitum fjölgað um meira en eitt þúsund daglega og á síðasta sólarhring fjölgaði innlögðum kórónuveirusjúklingum um tíu. Nú liggja fjörutíu og sjö á dönskum sjúkrahúsum með COVID-19. 

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Hans Jørn Kolmos prófessor í örverufræði við Syddanmark-háskólann að aukin útbreiðsla smita sé áhyggjuefni en ekki sé ástæða til ofsahræðslu.

Hann segir mögulegt að kenna megi nýafstöðnu Evrópumóti í knattspyrnu um fjölgun smita enda hafi fólk komið saman í stórum hópum að fylgjast með keppninni.

Því vilji hann fylgjast með framvindu mála næstu daga og vikur. Hann segir áhyggjuefni haldi útbreiðsla veirunnar áfram þegar hausta tekur, því hún lifir betra lífi í köldu veðri, en vonast til að fjölgun bólusettra dragi úr hættunni af því.

Hann minnir jafnframt á að bæði í Ísrael og á Bretlandseyjum hafi smitum fjölgað þrátt fyrir bólusetningu.