Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Frakkar sekta Google um 500 milljónir evra

epa09281586 A view of Google sign at the entrance to the Google retail store in the Chelsea neighborhood of New York, New York, USA, 17 June 2021. The Google Store, which opened today, will allow customers to browse through and buy an extensive selection of products made by Google, ranging from Pixel phones, Nest products, Fitbit devices and Pixelbooks.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Samkeppnisyfirvöld í Frakklandi sektuðu í dag bandaríska tölvurisann Google um 500 milljónir evra fyrir að láta undir höfuð leggjast að taka af alvöru þátt í samningaviðræðum við fjölmiðlafyrirtæki í landinu vegna deilna um höfundarrétt. Forsvarsmenn fyrirtækisins vísa ásökunum á bug.

Google þarf innan tveggja mánaða að leggja fram hugmyndir um bætur til fyrirtækjanna fyrir að hafa birt fréttir þeirra og annað ritstjórnarefni án greiðslu. Verði forsvarsmenn tæknirisans ekki við þessum tilmælum samkeppnisyfirvalda innan hins tilskilda frests þurfa þeir að greiða 900 milljónir evra í sekt á dag. 

Isabelle de Silva, yfirmaður frönsku samkeppnisstofnunarinnar, sagði á fundi með fréttamönnum í dag að sektin væri sú hæsta sem fyrirtæki hefði verið gert að greiða fyrir að fara ekki að tilmælum hennar.

Í yfirlýsingu sem stjórnendur Google sendu frá sér segir að þeir séu afar vonsviknir vegna ákvörðunar samkeppnisyfirvalda. Þeir hafi átt í viðræðum við fjölmiðlafyrirtækin í góðri trú um að niðurstaða fyndist á endanum. Því er vísað á bug að fulltrúar fyrirtækisins hafi ekki tekið þátt í viðræðunum af heilum hug. 

Í desember 2019 sektuðu Frakkar Google um 150 milljónir evra fyrir brot á samkeppnislögum vegna yfirburða þess á auglýsingamarkaði. Meðal annars var fundið að grautarlegum reglum í auglýsingahluta fyrirtækisins. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV