Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

9 dagar í ÓL - Gullmaðurinn Mark Spitz

IMF100 - 19720831 - MUNICH, GERMANY : (FILES) - Picture dated 31 August 1972 showing US Marc Spitz at the Olympic Games in Munich. The national olympic committees named Pele (soccer), Muhammad Ali (boxing), Carl Lewis (athletics), Michael Jordan (basketball) and Mark Spitz (swimming) the five sportsmen of the century it was reported in a Intertional Olympic Committee statement 17 December 1999.

EPA PHOTO FILES/STAFF/GL/lk
 Mynd: EPA

9 dagar í ÓL - Gullmaðurinn Mark Spitz

13.07.2021 - 13:57
Ólympíuleikarnir verða settir í Tókíó í Japan eftir 10 daga. Í aðdraganda leikanna rifjum við því upp nokkur eftirminnileg augnablik í sögu leikanna. Í dag rifjum við upp afrek bandaríska sundmannsins Mark Spitz árið 1972.

Mark Spitz fæddist í febrúar árið 1950 og ólst upp á Hawaii og í Kaliforníu. Hann hneigðist snemma til sunds sem lítill gutti á ströndum Hawaii. Fljótt kom í ljós hvers hann var megnugur í lauginni og 10 ára gamall setti hann fyrsta heimsmetið í barnaflokki. Í menntaskóla (e. high school) átti hann öll bandarísku landsmetin í öllum greinum og vegalengdum. Fyrsta heimsmet fullorðinna setti hann árið 1967, þá 17 ára gamall, í 400 metra skriðsundi. Stjarna var fædd.

Vonbrigði í Mexíkó

Mark Spitz keppti á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968. Þá þegar átti hann 10 heimsmet í hinum ýmsu sundgreinum og var drjúgur með sig. Hann lýsti því yfir að hann myndi vinna sex gullverðlaun á leikunum. Slíkt hafði til þess tíma enginn leikið. En dramb er falli næst. Hann vann aðeins tvær greinar og báðar voru boðsund. Þess utan náði hann í silfur í 100 metra flugsundi.

Vonsvikinn með árangurinn hélt hann aftur heim til Bandaríkjanna og hóf nám í háskóla. Hann valdi Háskólann í Indiana og æfði þar undir stjórn Doc Counsilman, sem hafði þjálfað hann í Mexíkó. Það reyndist stórfín ákvörðun.

„Þetta var stærsta ákvörðun lífs míns, og jafnframt sú besta,“ sagði Spitz síðar.

Á tíma sínum í Indiana vann hann 8 háskólatitla og árið 1971 var hann valinn besti háskólaíþróttamaður Bandaríkjanna.

München 1972

Spitz var án nokkurs vafa stærsta stjarnan í sundkeppni Ólympíuleikanna í München 1972. Minnugur vandræðanna í Mexíkó sparaði hann hins vegar stóru orðin í aðdragandanum, þó markmiðið hafi engu að síður verið það að vinna sex greinar. Það gerði hann, og gott betur.

Mark Spitz keppti í sjö greinum á leikunum 1972 og vann gull í öllum. Í ofanálag setti hann heimsmet í öllum sjö greinunum. Þetta var afrek sem var algjörlega fordæmalaust og það var ekki fyrr en 36 árum síðar sem það var toppað þegar Michael Phelps vann átta gullverðlaun á leikunum í Peking 2008.

Aðeins Phelps á fleiri gullverðlaun á Ólympíuleikum en Mark Spitz. 9 gull hans setja hann í fámennan hóp. Paavo Nurmi, Larissa Latynina og Carl Lewis eru hin þrjú sem hafa unnið 9 gullverðlaun á Ólympíuleikum.

Algjörlega vonlaust er að velta sér upp úr því hvort Spitz hefði mögulega getað nælt í fleiri gullverðlaun því hann hætti keppni eftir leikana í München. Þá var hann samt aðeins 22 ára gamall.