Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir 300 skógar- og gróðureldar loga í Bresku Kólumbíu

12.07.2021 - 06:58
A motorist watches from a pullout on the Trans-Canada Highway as a wildfire burns on the side of a mountain in Lytton, B.C., Thursday, July 1, 2021.  (Darryl Dyck/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP
Neyðarástandi vegna gróðurelda hefur verið lýst yfir á stórum svæðum í Bresku Kólumbíu í Kanada. Þar kviknuðu minnst 77 nýir gróður- og skógareldar um helgina og alls loga þar ríflega 300 slíkir eldar.

Á vef kanadíska ríkissjónvarpsins CBC segir að slökkvilið hafi verið kallað út vegna fjölda nýrra elda í gær. Talsvert var um þrumuveður á laugardagskvöld og aðfaranótt sunnudags, og eldingarnar sem því fylgdu kveiktu ófáa elda sem sumir „stækkuðu hratt“ að sögn upplýsingafulltrúa slökkviliðs.

Ekki er unnt - og ekki reynt - að kljást við alla þá ríflega 300 elda sem brenna, enda meirihluti þeirra fjarri mannabyggð. Slökkvilið einbeitir sér að þeim eldum sem metnir eru hættulegastir og fylgist náið með 25 slíkum, sem taldir eru geta ógnað almannaöryggi í fylkinu.

Afar heitt hefur verið í vesturfylkjum Kanada síðustu tvær vikurnar og ekkert útlit fyrir að kólna taki að ráði fyrr en á fimmtudag í fyrsta lagi. Spáð er 38 stiga hita yfir daginn þar sem heitast verður næstu daga, hlýjum vindum og lítilli sem engri úrkomu.