Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vistun manns á réttargeðdeild mannréttinda- og lögbrot

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir mál mikið fatlaðs manns sem hefur verið vistaður á réttargeðdeild í fjögur ár án allrar nauðsynlegrar þjónustu vera fjarri hugmyndum nútímans um hvernig slíkar deildir eigi að vera reknar.

Stöðuna megi rekja til fjárskorts, húsnæði og hugmyndafræði séu fallin á tíma. Læknar á Landspítala hafi bent á að nýrri bygginga sé þörf, Geðhjálp taki undir það en vilji fyrst og fremst þurfi að breyta hugmyndafræðinni.

Það komi fram í almennri greinargerð sem Geðhjálp sendi embætti landlæknis og Landspítalanum, um hvernig breyta eigi geðheilbrigðiskerfinu til hins betra.

Fornaldaraðferðir við meðferð geðrænna áskorana

Grímur segir mikið um þvinganir, mikið um um nauðung og innilokanir. „Það eru því miður fornaldaraðferðir við meðferð við geðrænum áskorunum,“ segir hann.

„Víða í kringum okkur eru komnar lyfjalausar deildir, samfélagsþjónustan er miklu öflugri. Það eiga að vera fáar geðdeildir til, þetta á að vera unnið úti í samfélaginu en  ekki inni á lokuðum stofnunum,“ segir Grímur.

Mat yfirlæknis réttargeðdeildarinnar er að réttindi mannsins séu brotin með vistuninni og hann mælir með þeim úrræðum sem Reykjavíkurborg hefur upp á að bjóða, með sólarhringsvöktun og gæslu.

Maðurinn er með mikinn heilaskaða, flogaveiki og greindarskerðingu og var úrskurðaður ósakhæfur en skyldi vistaður á viðeigandi stofnun eftir alvarlega líkamsárás, haustið 2017.  Hann hafi ekki gert sér grein fyrir þeim verknaði sem hann framdi.

Hann var sendur á réttargeðdeildina á Kleppi þar sem hann er enn. Sá úrskurðurður hefur verið framlengdur sjö sinnum.  Grímur Atlason segir Geðhjálp hafa bent á að skoða beri nútímann með augum framtíðarinnar.

„Hvernig verður talað um svona staði eftir áratugi? Við hjá Geðhjálp viljum að sett verði á oddinn, hvernig við viljum hafa þetta eftir þrjátíu ár og að við gerum það í dag.“

Úrræðin eiga að vera úti í samfélaginu

Mál mannsins er nú í höndum félagsmálaráðuneytisins eftir að velferðarsvið borgarinnar vísaði því frá sér. Grímur segir skýringu á því.

„Það er væntanlega vera vegna þess lögfræðitúlkunar á að þetta hafi verið dómur. Þetta er bara einstaklingur, við erum misjöfn, stundum þurfum við mikla þjónustu, stundum mjög mikla. Við verðum sem siðað samfélag að veita hana.“

Það þurfi að gerast á stofnunum ríkisins og úrræðum sveitarfélaganna. Þau þurfi að hafa bolmagn til að veita þessa þjónustu en ríki og sveitarfélög kasti málum á milli sín og það bitni á fólki sem fær ekki þjónustu.

„Þetta getur gengið á svo árum skipti, að fólk fær ekki þá þjónustu sem það á rétt á samkvæmt lögum. Þetta er í rauninni mannréttindabrot, þetta er lögbrot.

Það stendur í lögum um sveitarfélög og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga hvað þau eigi að gera.“ Sveitarfélögin séu mörg hver veikburða og þurfi að vera sterkari til að geta veitt þessa þjónustu.

„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga að geta veitt þessa þjónustu en þau gera það ekki.“ Grímur segir hugmyndafræði 19. og 20. aldar ríkjandi á Íslandi í geðheilbrigðismálum.

Í raun eigi fáar geðdeildir að vera til, úrræðin eigi að vera unnin í samfélaginu, ekki inni á lokuðum stofnunum.

Hann segir húsnæði fallið á tíma líkt og hugmyndafræðin, því sé mikilvægt að taka á því. Starfsfólkið geri þó sitt allra besta, enda hafi starfsfólk bent á hvernig búið sé að umræddum manni. 

Í frétt RÚV af málinu í gær kom fram að yfirlæknir réttargeðdeildarinnar telji lítils bata að vænta hjá manninum.

Lögregla meti hann hættulegan umhverfi sínu og í úrskurði var hann sagður ófær um að stjórna gerðum sínum og því nauðsyn að hann gangi ekki laus. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV