Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Verðbólga á uppleið í takt við hækkandi hrávöruverð

Mynd með færslu
 Mynd: royalte free photos
Verði hækkun hrávöruverðs á heimsmarkaði varanleg þykir ljóst að verðbólga aukist í heiminum. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem segir að hrávöruverð hafi ekki verið jafnhátt í tæp tíu ár. Mikil óvissa ríki þó um framhaldið.

Allt frá því í apríl á síðasta ári hefur verð hækkað stanslaust milli mánaða og er nú 37% hærra en það var mánuðina áður en kórónuveirufaraldurinn braust út.

Hækkunin hefur orðið til þess að verðbólga í Bandaríkjunum er tæp fimm prósent, um tvö prósent á evrusvæðinu, 2,1% í Bretlandi og 2,7% í Noregi. Leita þarf allmörg ár aftur í tímann til að finna viðlíka verðbólgutölur og til ársins 2008 vestra. 

Enn er alls óvíst hvort og hve lengi verð heldur áfram að hækka en Seðlabanki Bandaríkjanna telur kúfinn verða skammlífan líkt og eftir efnahagshrunið. Verði það ekki raunin metur Landsbankinn hættu á að verðbólga valdi vanda hér á landi og í helstu viðskiptalöndunum. 

Í samantekt Landsbankans segir að Íslendingar hafi helst orðið varir við hrávöruverðshækkun í verði eldsneytis en áhrifin eru þó minni hér en víða annars staðar vegna áhrifa opinberra gjalda í fastri krónutölu á það.

Hækkunin á tólf mánaða tímabili hér nemur 12,7% en í Bandaríkjunum er hún 51%. Heimsmarkaðsverð olíu hækkaði um áttatíu af hundraði á sama tíma. 

Ástæður hækkunarinnar nú eru að mörgu svipaðar og árið 2011, það er umfangsmiklar aðgerðir hins opinbera til að örva fjármálaheiminn, bæði hinn opinbera og almenna.

Auk þess hafa hnökrar í framleiðslu og flutningi áhrif núna ásamt því sem flutningur með gámaskipum hefur hækkað mjög í verði.