Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Utanríkisráðherrar ræddu varnarmál og mannréttindi

Mynd með færslu
 Mynd: Utanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands hittust á fundi í morgun og ræddu sameiginlega hagsmuni ríkjanna, mannréttindi og varnarmál.

Guðlaugur Þór er í Bretlandi vegna undirritunar fríverslunarsamnings Breta við EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Liechtenstein og Noreg, að því er fram kemur á vefsíðu ráðuneytisins. Guðlaugur segir samningana marka upphafsreit í samskiptum ríkjanna. 

Meðal annars ræddu ráðherrarnir mannréttindi og alþjóða-, öryggis- og varnarmál en Guðlaugur áréttaði að lýðræðisríkjum bæri að gera stjórnvöldum í Hvíta Rússlandi ljóst að mannréttindabrot og ofsóknir gegn umbótaöflum landsins yrðu ekki látin óátalin.

Ráðherrarnir lögðu jafnframt í samtali sínu áherslu á sameiginlega viðbragðssveit ríkja í Norður-Evrópu (Joint Expeditionary Force, JEF) sem stofnuð var 2018 og Bretar eru í forsvari fyrir. 

Ísland gerðist aðili að samstarfinu í apríl síðastliðnum en ætlunin er að það nýtist til neyðarviðbragða vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Ætlunin er að síðar muni borgaralegur sérfræðingur starfa fyrir Íslands hönd en að öðru leyti fylgi enginn kostnaður samstarfinu.  

Guðlaugur Þór og  Amanda Solloway, ráðherra vísinda, rannsókna og nýsköpunar undirrituðu í morgun samkomulag um samstarf ríkjanna á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar.

Sá samningur segir Guðlaugur að tryggi áframhaldandi aðgang íslenskra náms- og fræðimanna að breskum menntastofnunum og styrkjum til náms þar í landi frá og með haustinu 2022.