Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Toppliðin með góða útisigra

Mynd með færslu
 Mynd: MummiLú - RÚV

Toppliðin með góða útisigra

12.07.2021 - 21:48
Tveir leikir fóru fram í efstu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Topplið Vals vann góðan útisigur í Garðabæ á meðan að Breiðablik fór létt með Fylki í Árbænum.

Fyrri leikur kvöldsins í efstu deild kvenna fór fram í Árbænum í kvöld þegar Fylkir og Breiðablik mættust. Bæði lið eru neðar í töflunni en þau myndu kjósa. Fylkir í 9. sæti en Breiðablik í 2. sæti. 

Leikurinn fór rólega af stað en eftir því sem leið á leikinn varð pressa Breiðabliks þyngri. Á 34. mínútu var komið að fyrsta markinu og það gerði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sem skoraði beint úr hornspyrnu. Áslaug Munda var aftur á ferðinni á 55. mínútu þegar hún kom Blikastelpum tveimur mörkum yfir. En Áslaug Munda var frábær í leiknum í kvöld.

Þriðja mark Breiðabliks kom á 61. mínútu en þá var Agla María Albertsdóttir komin í fínt færi en í stað þess að skjóta renndi hún boltanum á Taylor Marie Ziemer sem hamraði boltann í netið. Á 90. mínútu skoraði Hildur Antonsdóttir fjórða mark Breiðabliks eftir stoðsendingu frá Öglu Maríu. 

Þetta var afar mikilvægur sigur hjá Breiðablik sem setur áfram pressu á Val sem er á toppi deildarinnar.

Valur heldur efsta sætinu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Í Garðabæ tók Stjarnan á móti toppliði Vals. Í liði gestanna vakti athygli að Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var á varamannabekknum sem varamarkvörður en Anna Úrsúla hefur lengi verið ein fremsta handboltakona landsins. 

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik og því var markalaust eftir fyrstu 45 mínúturnar. Seinni hálfleikur var einnig nokkuð rólegur til að byrja með. Valskonur voru meira með boltann og fengu fjölmargar hornspyrnur en þeim gekk illa að skapa sér góð færi. En á 72. mínútu náðu þær loks að skora. Mary Alice Vignola náði þá góðum skalla sem fór yfir Lipkens í marki Stjörnunnar. 

Tíu mínútum síðar gulltrygði Valur sér öll stigin þegar Lára Kristín Pederson kom liðinu í 2-0. Lára Kristín fékk þá boltann fyrir utan teig og smellti honum í samskeytin, hennar fyrsta mark fyrir Val. 

Valur er því áfram á toppi deildarinnar með 23 stig en Breiðablik fylgir fast í kjölfarið með 21 stig.