Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sandu og Evrópusinnar á sigurbraut í Moldóvu

12.07.2021 - 03:16
epaselect epa09336664 The President of Moldova Maia Sandu speaks to media after voting at a polling station during parliamentary elections in Chisinau, Moldova, 11 July 2021.  EPA-EFE/DUMITRU DORU
Maia Sandu, forseti Moldóvu, ræðir við fréttamenn á leiðinni frá kjörstað  Mynd: EPA-EFE - EPA
Aðgerðir og samstaða, eða PAS, mið-hægriflokkur Maiu Sandu, forseta Moldóvu, fór með sigur af hólmi í þingkosningum sem haldnar voru þar í landi á sunnudag. Þegar búið var að telja tæpan helming atkvæða hafði PAS fengið um 44 prósent atkvæða. Helstu andstæðingar PAS, kosningabandalag Sósíalista og Kommúnista, undir forystu tveggja forvera Sandu á forsetastóli, voru með um það bil 33 prósenta fylgi samkvæmt þessum tölum.

Sandu og flokkur hennar settu baráttu gegn spillingu, endurnýjun og aukið Evrópusamstarf á oddinn í kosningabaráttunni, með inngöngu í Evrópusambandið að markmiði. Kosningabandalag gömlu valdablokkanna, undir forystu Igors Dodons og Vladimírs Voronins, vill aftur á móti viðhalda sambandi og samstarfi Moldóvu við Rússland og styrkja það fremur en hitt.