Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Rannsóknaskip við makrílrannsóknir

Mynd með færslu
Árni Friðriksson RE. Mynd: Smári Geirsson/svn.is
Enn hefur ekki fundist makríll í veiðanlegu magni í íslensku lögsögunni og er allur íslenski flotinn við veiðar í Síldarsmugunni. Mælingar á makríl eru meðal verkefna í uppsjávarleiðangri sem Hafrannsóknastofnun tekur nú þátt í.

Leiðangurinn hófst 5. júlí og er rannsóknaskipið Árni Friðriksson þar ásamt skipum frá Noregi, Færeyjum og Danmörku. Þetta er tólfta árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í þessum leiðangri, en eitt af meginmarkmiðum hans er að meta magn og útbreiðslu makríls í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi.

Rannsókna- og veiðiskip við makrílleit

Í sumar hefur ekki fundist nægur makríll í íslensku lögsögunni svo hægt sé að hefja þar veiðar. Allur íslenski flotinn hefur því til þessa verið að veiðum í Síldarsmugunni, en þangað getur verið allt að 400 mílna sigling á miðin. Árni Friðriksson er nú kominn norðaustur af landinu og er við mælingar þar innan landhelginnar, og sjö til átta íslensk veiðiskip eru að leita undan Austurlandi. Þar hefur aðeins orðið vart við makríl, en veiðin er sáralítil.

Sífellt minna mælist af makríl í landhelginni

Sífellt minna hefur mælst af makríl í íslensku landhelginni undanfarin ár og í þessum sama rannsóknaleiðangri í fyrrasumar mældist 72% minna af makríl á hafsvæðinu við Ísland en árið 2019. Miklu máli skiptir fyrir íslensku útgerðirnar að veiða makrílinn í landhelginni til þess að skapa veiðireynslu og samningsstöðu, því ekkert samkomulag er í gildi um skiptingu aflaheimilda milli þjóðanna sem veiða úr makrílstofninum. Þar setur hver þjóð sér sitt aflamark.