Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nítján lögreglumenn særðir og 49 handtekin í ólátum

epa09337960 England supporters throw a tree as they gather in Leicester Square near Trafalgar Square before the UEFA EURO 2020 Final, in London, Britain, 11 July 2021. England will face Italy in the UEFA EURO 2020 Final soccer match at Wembley Stadium in London on 11 July 2021.  EPA-EFE/JOSHUA BRATT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Nítján lögreglumenn særðir og 49 handtekin í ólátum

12.07.2021 - 10:10
Lundúnalögreglan handtók fjörutíu og níu í ólátum sem brutust út í Lundúnum eftir tap Englands gegn Ítalíu í úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu. Lögregla kveðst ætla að rannsaka uppruna hatursfullra skilaboða til landsliðsmanna.

Fjöldi fólks safnaðist saman nærri Wembley, við Trafalgar-torg og víðar í West End hverfinu. Í tilkynningu frá lögreglu segir jafnframt að nítján lögreglumenn hafi særst í viðureign við óróaseggi. 

Þau handteknu frömdu margvísleg lögbrot, þar á meðal köstuðu þau glerflöskum að lögreglumönnum, brutu rúður í verslunum, rifu tré upp með rótum klifruðu staurum og upp á strætisvagnaskýli svo dæmi séu tekin. 

Lundúnalögreglan þakkar jafnframt þeim tugum þúsunda stuðningsmanna sem hegðuðu sér óaðfinnanlega þrátt fyrir tapið gegn Ítölum.

David Wolfson, aðstoðarráðherra í dómsmálaráðuneytinu, benti þinginu á að ofbeldi, einkum heimilisofbeldi, aukist í tengslum við viðamikla viðburði á borð við úrslitaleikinn í gærkvöldi.

Þrír hörundsdökkir landsliðsmenn, þeir Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka fengu yfir sig skæðadrífu hatursfullra skilaboða á samfélagsmiðlum, þrungnum kynþáttarfordómum, eftir að þeim mistókst að skora í vítaspyrnukeppninni. 

Boris Johnson forsætisráðherra segir leikmenn landsliðsins hafi aukið stolt ensku þjóðarinnar og ættu því alls ekki skilið aðkast af hálfu stuðningsmanna, ef stuðningsmenn mætti kalla, eins og forsætisráðherrann orðaði það. 

Tom Tugendhat, þingmaður Íhaldsflokksins og formaður utanríkismálanefndar þingsins, krefst þess að ummælin verði rakin og rannsökuð.

Lundúnalögreglan lýsti því yfir að það verði gert, enda sé slík framkoma algerlega óásættanleg.

Tengdar fréttir

Íþróttir

„Ótrúleg nótt á Ítalíu“

Fótbolti

Feiknarmikil fagnaðarlæti á Ítalíu