Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikið magn kókaíns á floti við strönd Austur-Sussex

12.07.2021 - 04:48
Kókaín sem fannst á floti og í fjörum við Newhaven og Hastings í Austur-Sussex á Englandi í maí 2021
Hluti af 960 kílóunum af kókaíni sem fundust við Newhaven og Hastings í Austur-Sussex í maí Mynd: National Crime Agency
Lögregla í Austur-Sussex á Englandi stendur nú vörð við ströndina beggja vegna bæjarins Seaford, eftir að pakkar fullir af kókaíni fundust á floti þar skammt undan. Fyrstu pakkarnir fundust á fimmtudag og ófáum til viðbótar hefur skolað á land síðan. Talið er að mögulegt söluandvirði þess sem þegar hefur fundist sé allt að tvær milljónir sterlingspunda, um 340 milljónir króna.

Í frétt BBC segir að þrír menn hafi verið handteknir, grunaðir um smygl á sterkum fíkniefnum, en þeir hafi verið látnir lausir gegn tryggingu. Það gildi einnig um karl og konu sem handtekin voru, grunuð um önnur fíkniefnabrot.

Ekki er óalgengt að fíkniefni reki á breskar fjörur og ekki er lengra síðan en í maí að það gerðist síðast í Austur-Sussex. Þá fundust tugir vatnsheldra pakka í flæðarmálinu nærri bæjunum Hastings og Newhaven, sem innihéldu samtals um 960 kíló af kókaíni. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV