Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Íbúar efins um byggingu vindorkuvers

Landeyðing á Melrakkasléttu.
 Mynd: Hafdís Hanna Ægisdóttir
Forseti sveitarstjórnar Norðurþings segir að kanna þurfi betur vilja íbúa sveitarfélagsins til vindorkuvers á Melrakkasléttu áður en aðalskipulagi verði breytt. 

 

Þyrfti að breyta aðalskipulagi

Á fundi byggðarráðs Norðurþings voru teknar fyrir tillögur íbúa vegna breytinga á aðalskipulagi. Sveitarfélagið leggur til að 33 ferkílómetrum lands á Melrakkasléttu verði breytt í iðnaðarsvæði í stað landbúnaðarsvæðis svo hægt verði að byggja þar vindorkuver með allt að fjörutíu vindmyllum.

14 athugasemdir bárust við tillöguna og engin þeirra jákvæð.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir forseti sveitarstjórnar lagði fram tillögu um að fallið yrði frá fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi en byggðarráð hefur frestað afgreiðslu hennar fram í ágúst.

„Mér fannst við værum að fara heldur geyst sem sveitarfélag því það er stór ákvörðun að breyta aðalskipulagi og mér finnst að það ætti að frekar að vera lokapunktur en ekki eitthvað sem við vinnum fyrir fram ef við ætlum svo ekki að fara í þetta verkefni. Ég lagði það til að við myndum stoppa, hlusta aðeins á íbúana okkar því að sveitarfélagið sjálft hefur ekki markað sér stefnu í þessum málum. Mér finnst óþarfi að við hlaupum af stað að breyta aðalskipulaginu okkar þegar við erum ekki búin að ræða hvernig við ætlum að hafa þetta innan sveitarfélagsins,“ segir Kolbrún

Íbúar fái að taka afstöðu

Kolbrúnu finnst byrjað á vitlausum enda. Verkefnið ætti fyrst að fara í gegnum umhverfismat og frekari rannsóknir í stað þess að byrja á umfangsmiklum aðgerðum við að breyta aðalskipulagi. Það ætti að gerast í lokin. Málið sé umdeilt og því þurfi að vera meiri umræða meðal íbúa og betri kynning.

„Mér finnst sjálfsagt að kanna vilja íbúanna og heyra í þeim almennilega, ná þeim kannski sem flestum í íbúakönnun eða hvað það er. Ég held að þetta sé umdeildara mál heldur en við gengum út frá,“ segir Kolbrún.

Byggðarráð tekur undir áhyggjurnar

Í fundargerð byggðarráðs Norðurþings kemur fram að afgreiðslu tillögu Kolbrúnar verði frestað þar til í ágúst. Byggðarráð tekur undir þær áhyggjur sem birtast í framlagðri tillögu enda ljóst að málið er umdeilt. Skipulags- og framkvæmdaráð hefur haft til umfjöllunar athugasemdir sem borist hafa og gefa þær tilefni til frekari gagnaöflunar meðal íbúa á svæðinu, áður en lengra er haldið. Sveitarstjóra er falið að efna til íbúakönnunar um afstöðu til fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi með tilliti til uppbyggingar vindorkuvers. Þá er sveitarstjóra falið að upplýsa væntanlega framkvæmdaaðila um framkomna tillögu og stöðu málsins.