Heimavirkjanir skemmdust í vatnavöxtunum

12.07.2021 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Talsverðar skemmdir urðu á smávirkjunum á Norðurlandi í miklum vatnavöxtum á dögunum. Mest varð tjónið á tveimur bæjum þar sem skemmdust bæði stíflur og inntaksmannvirki.

Stíflumannvirki ábúenda á Fornhólum í Fnjóskadal eru ofarlega í Merkjárgili, skammt austan við bæinn. Þar þurfti að ráðast í umtalsverðar aðgerðir í kjölfar vatnavaxtanna í byrjun mánaðarins.

Allt úr lagi gengið við stífluna

Vatnsflaumurinn fyllti uppistöðulón virkjunarinnar af aur og grjóti, færði stífluna í kaf og tók í sundur lögnina sem leiðir vatnið niður í rafstöðina. Jón Sigurðsson, bóndi á Fornhólum segir að í rauninni hafi allt verið úr lagi gengið eftir flóðin. Stíflan sjálf stóð þetta af sér en mikil vinna fór í að fylla í skörð sem vatnið rauf í varnargarð og að lagfæra pípuna. Allt rafmagn á bænum kemur frá virkjuninni og því þurfti að keyra dísilrafstöð á meðan verið var að gera við.

Stíflan á Kambsstöðum eyðilagðist

Í Ljósavatnsskarði rauf síðan Kambsá stífluna við virkjun bænda á Kambsstöðum og stórskemmdi inntaksmannvirki. Þar verður ekki framleitt rafmagn á næstunni. „Svo mikill vöxtur var í ánni að hún náði að rífa með sér stífluna í heimarafstöðinni og svo bar hún svo mikinn aur og grjót með sér að hún fyllti pípuna,“ segir Hermann Þór Hauksson, bóndi á Kambsstöðum.

Allt þriggja fasa rafmagn kemur frá virkjuninni

Allt þriggja fasa rafmagn fyrir búið á Kambsstöðum kemur frá virkjuninni. Það drífur mikilvægan tækjabúnað við búreksturinn og hús á bænum eru hituð með þriggja fasa rafmagni. „Við þurfum að grafa upp pípuna, allavega þar sem hún er full af möl, skipta því út. Svo þurfum við að endurbyggja stífluna,“ segir Hermann.