Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Heimasigrar í báðum leikjum kvöldsins

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Heimasigrar í báðum leikjum kvöldsins

12.07.2021 - 21:16
Tveir leikir fóru fram í efstu deild karla í fótbolta í kvöld. KR vann Keflavík 1-0 eftir frábært mark í upphafi leiks. Í Breiðholtinu fór fram sannkallaður botnslagur þar sem Leiknir vann heimasigur á botnliði ÍA.

KR tók á móti Keflavík í hörku leik í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld. Bæði lið mættu full sjálfstrausts í leikinn eftir að hafa unnið leiki sína í síðustu umferð. Fyrir leikinn var KR með 17 stig eftir 11 leiki sem dugði þeim í fjórða sæti deildarinnar. Keflavík var tveimur sætum neðar með 13 stig eftir 10 leiki. 

Fyrsta markið kom strax á 7. mínútu leiksins. KR-ingar fengu þá hornspyrnu sem Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, sló í burtu. Boltinn barst þá til Arnþórs Inga Kristinssonar sem tók boltann á lofti og smellti honum í slánna og inn. Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiks en Keflvíkingar voru sjaldan líklegir til að jafna fyrstu 45 mínúturnar. 

Á 70. mínútu dró aftur til tíðinda eftir rólegan síðari hálfleik. Þá fékk KR víti eftir að brotið var á Kennie Chopart. Pálmi Rafn fór á punktinn en Sindri Kristinn varði í markinu. Eftir vítið fjaraði leikurinn í raun út og lítið var um færi. KR vann því Keflavík með einu marki gegn engu. 

Heimasigur í fallbaráttuslag

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Í Breiðholti fór fram sannkallaður fallbaráttuslagur þegar Leiknir og ÍA áttust við. Heimamenn voru í 10. sæti fyrir leik kvöldsins en gestirnir í því neðsta. Leiknir var mun betra liðið til að byrja með og það skilaði sér í marki á 19. mínútu. Það skoraði Sævar Atli Magnússon eftir skemmtilega stoðsendingu frá Daníel Finns Matthíassyni. Leiknir var áfram betra liðið eftir markið en Skagamenn áttu þó nokkrar ágætis skyndisóknir. 

Seinni hálfleikur var ögn rólegri til að byrja með en upp úr miðjum hálfleiknum fór aðeins að hitna í kolunum. Það sauð upp úr á 65. mínútu þegar Sindri Snær Magnússon fór í ansi groddaralega tæklingu gegn Ósvaldi Jarli, leikmanni Leiknis. Sindri Snær fékk verðskuldað gult spjald en hugsanlega vildu Leiknismenn hafa annan lit á spjaldinu. Í kjölfarið fékk Hlynur Helgi Arngrímsson, aðstoðarþjálfari Leiknis, rautt spjald og var því rekinn upp í stúku. 

Strax eftir rauða spjaldið komst Leiknir í 2-0. Manga Escobar átti þá frábæran sprett upp völlinn þar sem hann fór illa með varnarmenn ÍA áður en hann smellti boltanum í fjærhornið. Eftir markið var sigur Leiknis aldrei í hættu og liðið nælir sér í afar mikilvæg þrjú stig.