Dimma - Þögn

Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir / 2021

Dimma - Þögn

12.07.2021 - 14:50

Höfundar

Þungarokksveitin góðkunna Dimma sendi nýlega frá sér plötuna Þögn sem er hennar fyrsta eftir mannabreytingar. Fjögur ár eru nú liðin frá því að sveitin gaf síðast út breiðskífu, en þær hafa verið þónokkrar síðan fyrsta plata sveitarinnar kom út fyrir sextán árum síðan.

Dimmu þarf vart að kynna enda ein vinsælasta rokksveit landsins undanfarin ár og hefur sent frá sér fimm hljóðversskífur; Dimma kom út 2005, Stigmata þremur árum síðar, Myrkraverk árið 2012, Vélráð 2014, Eldraunir árið 2017 og nú í ár Þögn. Einnig hefur Dimma sent frá sér aðrar fimm tónleikaplötur með mynddiskum, sem flestar hafa selst vel.

Á fyrri plötum Dimmu hefur yrkisefnið jafnan verið dimmt og drungalegt, eins og plötuheitin Myrkraverk, Vélráð og Eldraunir gefa til kynna. Á Þögn kveður hins vegar á köflum við annan tón, þó að tónlistin sé sem fyrr melódískt en þungt rokk, en meginþema plötunnar er upprisa.

Fyrri plötur Dimmu voru oftar en ekki unnar mjög hratt en í þetta sinn gáfu menn sér góðan tíma í útsetningar, upptökur og hljóðblöndun sem skilar sér vel á plötunni, enda vilja sumir meina að Þögn sé sterkasta plata sveitarinnar til þessa.

Eins og áður sagði þá er þetta fyrsta plata Dimmu eftir mannabreytingar en á Þögn er það Stefán Jakobsson sem syngur, Ingó Geirdal spilar á gítar, Silli Geirdal á bassa og Egill Örn Rafnsson er á trommum. Upptökustjórn var í höndum Silla Geirdal, Ingós Geirdal og Sveins M. Jónssonar, sem hljóðblandaði einnig plötuna en Ólöf Erla Einarsdóttir hjá Svart sá um hönnun fyrir geisladisk og vínylútgáfu.

Þögn, ný plata Dimmu, er plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni og verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Ingós Geirdal eftir tíufréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.