Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

COVID-auglýsing í Ástralíu sögð hræðsluáróður

Auglýsing, sem sýnir konu reyna að ná andanum vegna COVID-sýkingar, hefur vakið hörð viðbrögð í Ástralíu. Yfirvöld hafa verið sökuð um hræðsluáróður og sérfræðingar óttast að hún kunni að draga úr vilja fólks til að láta bólusetja sig. Þá er gagnrýnt að auglýsingunni sé beint að ungu fólki sem geti ekki látið bólusetja sig strax.

Áströlsk yfirvöld ætla með tveimur auglýsingum að hvetja fólk til að fara í bólusetningu og virða sóttvarnareglur.

Önnur sýnir fólk með plástur á upphandleggnum eftir bólusetningu en hin unga konu sem nær varla andanum í glímu sinni við kórónuveiruna. 

Haft er eftir Greg Hunt, heilbrigðisráðherra Ástralíu, á vef Guardian að fyrri auglýsingin hafi átt að fara í loftið á þessum tímapunkti í faraldrinum en þá seinni hafi átt að sýna ef smitum færi að fjölga verulega.

Í henni er fólk hvatt til að halda sig heima, fara í sýnatöku ef það finnur fyrir einkennum og bóka tíma í bólusetningu. Og það er hún sem hefur farið fyrir brjóstið á fólki. 

Fram kemur á vef BBC að auglýsingin sé eingöngu sýnd í Sidney þar sem hálfgert útgöngubann (e. lockdown) hefur verið í gildi í nærri þrjár vikur. 112 smit með Delta-afbrigðinu greindust þar á mánudag  og eru þau orðin 700 síðan um miðjan júní.  

Gagnrýnendum finnst ósanngjarnt að auglýsingunni sé beint að ungu fólki því það fái sennilega ekki bólusetningu fyrr en í lok árs. Heilbrigðisyfirvöld hafa mælst til þess að yngra fólk bíði til að fá Pfizer-bóluefnið í stað þess að þiggja bóluefnið frá AstraZeneca.

Vísindamenn hafa bent á að svona auglýsingar geti gert fólk óttaslegið um aukaverkanir af völdum bóluefna og orðið  til þess að það verði hreinlega tregara til að mæta í bólusetningu. 

Paul Kelly, landlæknir Ástralíu, varði auglýsinguna og sagði tilgang hennar að vekja fólk til umhugsunar.  „Við viljum að fólk haldi sig heima, fari í sýnatöku og bóki tíma í bólusetningu. Við erum eingöngu að þessu vegna stöðunnar í Sydney.“

Fram kemur á vef BBC að stjórnvöld í Ástralíu hafi verið harðlega gagnrýnd fyrir að standa illa að bólusetningum gegn COVID-19. Byrjað var að bólusetja í febrúar. Vegna skorts á bóluefni Pfizer, lítillar þátttöku almennings og misvísandi upplýsinga um bóluefni AstraZeneca eru aðeins um tíu prósent landsmanna fullbólusettir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV