Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Allir sammála um að hann sé á röngum stað”

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Yfirlæknir réttargeðdeildarinnar á Kleppi segir réttindi brotin á manni sem situr fastur á deildinni vegna úrræðaleysis kerfisins. Maðurinn þarf að komast í eigin íbúð með mikilli gæslu, en Reykjavíkurborg vísar á ríkið þar sem öryggisvistun er ekki lengur á borði sveitarfélagsins. Margfalt dýrara er að hafa fólk á réttargeðdeildinni en í úrræði úti í samfélaginu.

Sýknaður og metinn óskakhæfur 2018

RÚV greindi frá því í gærkvöld að ríflega þrítugur karlmaður, með mikinn heilaskaða og flogaveiki, hefði verið lokaður inni á réttargeðdeildinni á Kleppi síðan haustið 2017. Hann hlaut þá dóm fyrir líkamsárás, en var sýknaður 2018 og metinn ósakhæfur. Ættingjar mannsins hafa barist lengi fyrir að honum verði komið í viðeigandi úrræði þar sem hann nýtur meira frelsis, og fær þá þjónustu og þau mannréttindi sem honum ber. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir lög- og mannréttindabrot framin á manninum. 

Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir réttargeðdeildarinnar, tekur undir þetta. Fyrir tveimur árum hafi verið orðið skýrt að hann þyrfti nauðsynlega að komast í annað úrræði og heimild til þess fékkst fyrir dómi. Hann segir löngu orðið ljóst hvers konar úrræði maðurinn þurfi. 

„Falleg íbúð. Mönnun, sem sinnir hans þörfum og öryggi. Alúð og aðhald. Og hjálp. Það er það sem hann þarf,” segir hann. Svoleiðis úrræði eru til staðar. „Það þarf bara að finna þau og kosta þau. Þetta er ekki flókið.” 

Hann segir svona búsetu vissulega kosta sitt, en það gerir vistun á réttargeðdeildinni líka. „Það er þrisvar til tíu sinnum dýrara.”

Fyrir utan bara manngæskuna og mannréttindin, að þetta er rangt. Þetta er fatlaður maður.

Veikindin af öðrum toga en gengur og gerist

Sigurður Páll segir veikindi mannsins af öðrum toga en gengur og gerist á deildinni, enda er hann ekki með skilgreindan geðsjúkdóm, heldur heilaskaða og flogaveiki. 

„Við erum oftast að sinna formlegum geðsjúkdómum. Geðklofa, geðhvörfum. Við erum ekki sérhæfðir í þessu. Þó erum við farin að verða ansi góð, því það er enginn annar sem er að sinna því, eins merkilegt og það er,” segir hann.  

„Hér erum við ekki að tala um neina bófa, eða síbyljuafbrotamenn. Við erum að tala um einstök tilvik sem eru alvarleg, og hafa leitt viðkomandi inn í þennan tröppugang.”

Reykjavíkurborg sinnir ekki öryggisvistun

Það virðast allir vera sammála um að það sé verið að brjóta á réttindum hans með því að hafa hann þarna? 

„Já. Við vorum með úrræði sem fannst þegar málið byrjaði, og það var ekki rangt að við tækjum málið að okkur í byrjun, en núna erum við búin að vera tveimur árum lengur með þetta mál en til stóð. Það eru allir sammála um að hann er á röngum stað á röngum tíma.”

„Reykjavíkurborg neitar að sinna öryggisvistun. Pakkinn er hjá ráðherra félagsmála.”

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur vísað málinu frá sér og þaðan fást þau skilaboð að sveitarfélagið sinni ekki svona tilvikum þar sem öryggisvistunum hefur verið útvistað til ríkisins. Svipuð mál heyra þó undir lög um réttindagæslu fatlaðra.