Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

10 dagar í Ólympíuleikana í Tókíó

Mynd með færslu
 Mynd: IOC

10 dagar í Ólympíuleikana í Tókíó

12.07.2021 - 14:20
Ólympíuleikarnir verða settir í Tókíó í Japan eftir 10 daga. Í aðdraganda leikanna rifjum við því upp nokkur eftirminnileg augnablik í sögu leikanna. Við hefjum leik á fullkominni tíu rúmensku fimleikadrottningarinnar Nadiu Comaneci.

Nadia Elena Comaneci fæddist í Rúmeníu í nóvember árið 1961. Þegar kom að Ólympíuleikunum í Montreal í Kanada sumarið 1976 var hún því aðeins 14 ára gömul. Engu að síður var búist við miklu af henni á leikunum, enda hafði verið vísir að því sem koma skildi í aðdragandanum.

Á Evrópumótinu 1975, þá aðeins 13 ára, vann hún gullverðlaun í öllum greinum nema gólfæfingum. Stjarna var fædd.

Comaneci keppti í Ameríkubikarnum í New York mánuði fyrir leikana. Þar fékk hún fullkomna einkunn, 10,0, fyrir æfingar sínar á stökki og í gólfæfingum. Það vakti mikla athygli, enda var það fáheyrt að einhver næði fullkomnum æfingum. Þetta var þó aðeins upphafið.

Montreal 1976

18. júlí 1976 skráði Nadia Comaneci sig í sögubækurnar með stæl. Í skylduæfingum í liðakeppninni keppti hún á tvíslá. Æfingar hennar voru með öllu gallalausar, og þóttu mjög erfiðar að auki. Dómarar voru ekki í nokkrum vafa. Comaneci hafði gert fullkomna æfingu og fékk fullkomna einkunn, þá hæstu sem nokkurn tíman hafði verið gefin; 10,00. Reyndar sýndu einkunnaskiltin á vellinum einkunnina 1,00 þar sem Omega, sem framleiddi einkunnaskiltin, gerði aðeins ráð fyrir þremur tölustöfum í einkunnunum. Svo fjarlægt þótti að einhver næði fullkominni æfingu.

Comaneci lét ekki staðar numið við þessa einu 10. Hún fékk sex tíur í viðbót á leikunum og vann gull í fjölþraut, á tvíslá og jafnvægisslá.

Comaneci var fyrst Rúmena til að vinna gull í fjölþraut á Ólympíuleikum og er enn þann dag í dag sú yngsta sem hefur unnið. Nú hefur reglum verið breytt á þá leið að keppendur verða að hafa náð 16 ára aldri til að mega keppa í fimleikum og því verður metið ekki slegið. 

Fyrir afrek sitt var hún valin íþróttakona ársins af AP-fréttastofunni og fékk gullmedalíu hamarsins og sigðarinnar í Rúmeníu og var útnefnd hetja verkalýðsins.

Náði aldrei sömu hæðum

Comaneci náði aldrei að endurtaka afrekin frá Montreal. Hún varði Evrópumeistaratitil sinn í tvígang og vann nokkur gullverðlaun á stökum áhöldum á næstu heimsmeistaramótum og á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980.

Eftir að þjálfarar hennar, Marta og Bela Kiralyi, flúðu Rúmeníu 1981 varð líf Nadiu að hálfgerðu fangelsi. Hún mátti ekki ferðast og sætti stanslausu eftirliti upp frá því. Hún settist í helgan stein árið 1984 en sætti áfram stífu eftirliti, mun stífara en hinn almenni Rúmeni á þessum árum.

„Það var móðgandi að hinn almenni borgari í Rúmeníu gat ferðast, en ekki ég. Eftir að fimleikaferlinum lauk var engin ástæða til að halda mér eitthvað ánægðri. Ég átti að gera eins og mér var sagt, eins og ég hafði alltaf gert. Ef Bela hefði ekki flúið hefði ég samt verið undir eftirliti en flóttinn beindi athyglinni að mér. Mér leið eins og fanga,“ skrifaði hún síðar í æviminningar sínar.

Í nóvember 1989, skömmu fyrir rúmensku byltinguna, flúði Nadia Comaneci Rúmeníu. Hún fór fótgangandi í skjóli nætur yfir til Ungverjalands og þaðan til Austurríkis og í frelsið. Þaðan komst hún til Bandaríkjanna. Hún settist að í Oklahoma og sneri ekki aftur til Rúmeníu fyrr en 1996.

Nadia Comaneci er ein skærasta stjarna Ólympíuleikanna frá upphafi. Engin leið er lengur til að jafna, hvað þá bæta, afrek hennar. Breytingar á stigagjöf árið 2008 gera það að verkum ekki er hægt að fá fullkomna 10 í einkunn. Því er Nadia Comaneci ein fárra íþróttastjarna fortíðarinnar sem er þess fullviss að afrek hennar verði aldrei toppuð.