Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Útlendingastofnun mótmælt á Austurvelli

Mynd: RÚV / RÚV
Fólk á vegum fernra samtaka kom saman til mótmælafundar á Austurvelli kl. 13 í dag til að mótmæla meðferð yfirvalda hér á landi á flóttafólki og meintu kerfisbundnu ofbeldi Útlendingastofnunar.

Samtökin eru Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, Refugees in Iceland, No Borders og Samstaða er ekki glæpur.

Saman vilja þau fordæma það sem þau kalla ítrekaða ómannúðlega meðferð á fólki á flótta og kerfisbundið ofbeldi Útlendingastofnunar, auk lögregluofbeldis í síðastliðinni viku. Er þar vísað til þess að hælisleitendur voru boðaðir á skrifstofu Útlendingastofnunar þar sem lögregla sat fyrir þeim.

Samtökin Solaris segja að aldrei hafi jafn margir verið á flótta í heiminum og nú og gerð sé sú krafa að stjórnvöld leggi niður Útlendingastofnun og breyti tafarlaust um stefnu í málefnum hælisleitenda.