Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þróttur sigraði nýliðana - Jafnt fyrir norðan

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Þróttur sigraði nýliðana - Jafnt fyrir norðan

11.07.2021 - 18:09
10. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu hófst í dag með tveimur leikjum. Þór/KA og ÍBV gerðu 1-1 jafntefli en Þróttur vann nýliða Tindastóls 2-0.

Þór/KA og ÍBV mættust á Akureyri en fyrir leikinn voru liðin í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar. Staðan var markalaus í hálfleik en þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik skoraði Colleen Kennedy fyrir Þór/KA eftir klaufaganga hjá markmanni ÍBV. 

Á 65. mínútu jafnaði Hanna Kallmaier fyrir Eyjakonur, 1-1, og það reyndust lokatölur.  Liðin færast því ekkert úr stað, ÍBV er enn í sjötta sæti deildarinnar og Þór/KA í því sjöunda. 

Í hinum leik dagsins mætti Þróttur nýliðum Tindastóls. Þróttur var í fimmta sæti fyrir leikinn með 12 stig en Tindastóll sat í botnsæti deildarinnar með 8 stig. Vítaspyrna var dæmd á Tindastól á 30. mínútu og Katherine Amanda Cousins skoraði úr spyrnunni fyrir Þrótt, 1-0 í hálfleik. Stuttu eftir að flautað var aftur til leiks stýrði Ólöf Sigríður Kristinsdóttir svo boltanum í markið eftir fyrirgjöf frá Lindu Líf Boama og staðan orðin 2-0 Þrótti í vil. 

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og Tindastóll því enn á botni deildarinnar. Þróttarar komu sér hins vegar upp í 3. sætið með 15 stig, einu stigi meira en Selfoss sem á þó leik til góða. 

Tveir leikir verða spilaðir í 10. umferðinni á morgun sem klárast svo með einum leik á þriðjudag.