Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þingkosningar í Búlgaríu öðru sinni á þremur mánuðum

11.07.2021 - 04:46
epa09328271 A men passes in front of a campaign posters for the early parliamentary elections in Sofia, Bulgaria 06 July 2021. Bulgaria will hold аn early Parliamentary elections on July 11,2021.  EPA-EFE/VASSIL DONEV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þingkosningar fara fram í Búlgaríu í dag, aðeins þremur mánuðum eftir að síðast var kosið til þings þar í landi. Ekki hefur tekist að mynda starfhæfa ríkisstjórn eftir þær kosningar en vonast er til að leysa megi úr þeirri pattstöðu sem uppi er í búlgörskum stjórnvöldum með kosningunum í dag.

GERB, íhaldsflokkur forsætisráðherrans Boykos Borisovs, sem verið hefur við völd í áratug, fékk 26 prósent atkvæða í kosningunum í apríl og er stærstur flokka. Aðrir flokkar vilja hins vegar ekki starfa með GERB eftir langavarandi fjöldamótmæli síðasta sumar vegna meintrar spillingar Borisovs og hans helstu samstarfsmanna. 

Tveir flokkar hnífjafnir

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að lítill sem enginn munur sé á fylgi GERB og nýs flokks, „Til er sú þjóð" eða ITN, sem gefur sig einkum út fyrir að berjast á móti „kerfinu" og ráðandi valdastétt í landinu. Leiðtogi hans er söngvarinn og sjónvarpsstjarnan Slavi Trifonov, sem tryggði nýstofnuðum flokki sínum 17,6 prósent atkvæða í apríl. Hann er þó sjálfur ekki í framboði og hefur lýst því yfir að hann ætli sér ekki að verða forsætisráðherra.

Báðum flokkum er spáð 20 - 21 prósents fylgi í kosningunum í dag. Stjórnmálaskýrendur telja víst, að jafnvel þótt GERB fái eilítið fleiri atkvæði en ITN þá muni flokkurinn ekki halda um stjórnartaumana, þar sem engir aðrir flokkar muni vilja vinna með honum.

Óvíst að kosningar dagsins dugi til að höggva á hnútinn

Til að flækja málin enn frekar þá hefur Trifonov þegar lýst því yfir að ITN muni heldur ekki starfa með Sósíalistum og flokki tyrkneska minnihlutans, MRF, sem báðir hafa löngum haldið um stjórnartaumana í Búlgaríu.

Þess í stað vonast Trifonov til að flokkur hans geti myndað ríkisstjórn með tveimur nýjum flokkum sem, rétt eins og ITN, spruttu upp úr mótmælaöldunni miklu í fyrra sumar. Annar þeirra er hægri flokkurinn Lýðræðisleg Búlgaría, sem mælist með 12 prósenta fylgi, en hinn er vinstri flokkurinn Rísið upp! Út með mafíuna! Sá hefur fengið fimm til sex prósenta fylgi í skoðanakönnunum.

Ólíklegt þykir þó að þessir þrír flokkar fái nógu marga fulltrúa til að mynda meirihlutastjórn. 240 þingmenn eru á búlgarska þinginu. Stjórnmálaskýrendur í Búlgaríu telja ólíklegt að kosningar dagsins breyti miklu. Sex eða sjö flokkar muni að líkindum ná fólki á þing og erfitt að mynda lífvænlega og stöðuga meirihlutastjórn.

„Við getum ekki útilokað að við þurfum þriðju eða jafnvel fjórðu kosningarnar til að geta myndað trausta ríkisstjórn,“ sagði Toshka Yodorov, varaformaður ITN í sjónvarpsviðtali á miðvikudag. Hann sagði að þetta gæti reynst nauðsynlegt til að forðast myndun ríkisstjórnar, sem eigi á hættu að þingið felli hana fyrirvaralaust. 

„Það setur landið ekki á hliðina, þetta er hið lýðræðislega ferli.“

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV