Sjötti Wimbledon-titill Djokovic og sá þriðji í röð

epa09337797 Novak Djokovic of Serbia poses for a photo with the trophy after winning the men's final against Matteo Berrettini of Italy at the Wimbledon Championships, Wimbledon, Britain 11 July 2021.  EPA-EFE/STEVE PASTON / POOL   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL

Sjötti Wimbledon-titill Djokovic og sá þriðji í röð

11.07.2021 - 17:14
Novak Djokovic varð í dag Wimbledon-meistari í einliðaleik karla í tennis í sjötta sinn og í þriðja skipti í röð. Með sigrinum jafnaði hann met Rogers Federer og Rafaels Nadal yfir flesta titla á risamótum í tennis.

Djokovic fór frekar þægilega í gegnum mótið. Hann sigraði Christian Garín frá Síle í 16-liða úrslitum, hafði betur gegn Ungverjanum Márton Fuscovics í 8-liða úrslitum og sló loks út Kanadamanninn Denis Shapovalov í undanúrslitum mótsins á föstudag. 

Í úrslitunum mætti ríkjandi meistarinn Ítalanum Matteo Berrettini sem var í fyrsta skipti í úrslitum á risamóti í tennis. Síðast þegar úrslit Wimbledon fóru fram, árið 2019, spilaði Djokovic lengstu úrslitaviðureign í sögu mótsins gegn Roger Federer. Viðureignin í dag varð ekki alveg jafn löng en þó spennandi. 

Fyrsta sett var virkilega jafnt og þurfti á endanum að fara í upphækkun sem lauk með sigri Berrettini 7-6 (7-4). Það var hins vegar nóg til þess að fá Djokovic í gang en hann sigraði þá þrjú sett í röð, 6-4, 6-4 og 6-3, og tryggði sér sjötta Wimbledon-titilinn, þann þriðja í röð og 20. risatitilinn í einliðaleik karla.

Þremenningarnir Roger Federer, Rafael Nadal og Novak Djokovic hafa þar með samtals unnið 60 risatitla á ferlinum, 20 hver. Djokovic er svo með sigrinum í dag komin einu skrefi nær því að vinna öll risamót ársins en hann hefur nú þegar unnið á Opna franska og Opna ástralska.

Sigri hann Opna bandaríska og nái hann að næla sér í gull á Ólympíuleikunum í Tókýó yrði hann fyrsti karlinn í sögunni til þess að klára hina svokölluðu „Gullnu alslemmu“. Einungis þýska tenniskonan Steffi Graff hefur náð þeim árangri en hún sigraði öll fjögur risamótin árið 1988 og fékk gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Seoul sama ár.