Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óttast hópsmit eftir úrslitaleikinn á EM

epa09329263 Fans of England gather outside Wembley Stadium prior to the UEFA EURO 2020 semi final between England and Denmark in London, Britain, 07 July 2021.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Óttast hópsmit eftir úrslitaleikinn á EM

11.07.2021 - 13:43
Bresk yfirvöld hafa varað við smithættunni samfara fjölmennum samkomum fyrir úrslitaleikinn á Evrópumótinu í fótbolta í kvöld. Óttast er að hið bráðsmitandi delta-afbrigði kórónuveirunnar fari á flug í framhaldinu.

Þjóðir víða um heim hafa neyðst til að setja aftur á ýmiss konar takmarkanir til að hefta útbreiðslu umrædds afbrigðis sem hefur víða valdið hópsmitum á ný. Á meðan er keppst við að bólusetja sem flesta svo slaka megi á höftunum sem fyrst.

Meira en 60.000 aðdáendur munu koma saman á Wembley-leikvanginum fyrir úrslitaleikinn þar sem England mætir Ítalíu og er það mesti mannfjöldi á fótboltaleik í Bretlandi síðan heimsfaraldur COVID-19 braust út.

Hafa yfirvöld sérstakar áhyggjur af smithættunni þar sem fólk mun hópast saman á stuðningsmannasvæðum utan vallar og á krám til að fylgjast með þessum fyrsta úrslitaleik Englands á  stórmóti í fótbolta í meira en hálfa öld. 

Hjá stuðningsmönnum virðist eftirvæntingin vera öllum áhyggjum yfirsterkari, sem er einmitt það sem yfirvöldum stendur stuggur af. Mörg hundruð manns voru samankomin fyrir utan Wembley strax snemma í morgun til að syngja og kneyfa saman öl.

Yfirvöld í Danmörku, Finnlandi og Skotlandi hafa þegar tilkynnt um smit meðal þarlendra stuðningsmanna í kjölfar þess að þau voru viðstödd leiki á Evrópumótinu.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Dönsku blöðin: „Þið töpuðuð en unnuð hjörtu okkar“

Fótbolti

Englendingar í úrslit EM í fyrsta skipti í sögunni

Fótbolti

Ítalía í úrslit á EM eftir maraþonleik við Spán