Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ítalir Evrópumeistarar eftir sigur í vítaspyrnukeppni

epa09338843 Players of Italy celebrate after winning the penalty shoot-out of the UEFA EURO 2020 final between Italy and England in London, Britain, 11 July 2021.  EPA-EFE/Andy Rain / POOL (RESTRICTIONS: For editorial news reporting purposes only. Images must appear as still images and must not emulate match action video footage. Photographs published in online publications shall have an interval of at least 20 seconds between the posting.)
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

Ítalir Evrópumeistarar eftir sigur í vítaspyrnukeppni

11.07.2021 - 22:03
Ítalir eru Evrópumeistarar í knattspyrnu karla árið 2021. Liðið hafði betur gegn Englendingum eftir vítaspyrnukeppni og er Evrópumeistari í annað sinn. Þetta er einnig í annað sinn í sögu Evrópumótsins sem sigurvegari er útkljáður með vítaspyrnukeppni.

Stemmingin hefur verið rafmögnuð á götum, í görðum og húsum Lundúnarborgar í dag og stuðningsmenn hafa verið handvissir um að nú loksins sé fótboltinn á leiðinni heim. Ítalir höfðu fyrir leikinn hins vegar ekki tapað í síðustu 33 leikjum og aldrei lotið í lægra haldi fyrir Englendingum í keppni á stórmóti. 

Stuðningsmenn Englands þurftu ekki að bíða lengi eftir því að geta fagnað af því að eftir 1 mínútu og 57 sekúndur skoraði Luke Shaw, leikmaður Manchester United, mark fyrir Englendinga. Shaw valdi sér daginn til að skora en ekki nóg með að markið hafi verið hans fyrsta landsliðsmark heldur hefur aldrei verið skorað jafn snemma í úrslitaleik Evrópumótsins. 

Þrátt fyrir að vera komnir yfir héldu Englendingar áfram að sækja grimmt en boltinn endaði þó aldrei í netinu. Ítalinn Federico Chiesa átti marktilraun rétt fram hjá á markinu á 35. mínútu og staðan í leikhléi 1-0 fyrir Englandi.  

Síðari hálfleikur var fjörugur og aftur var það Chiesa sem var nálægt því að skora á 62. mínútu en Jordan Pickford gerði vel í marki Englendinga og varði skotið. Fimm mínútum síðar gat Pickford hins vegar ekkert gert í því að Leonardo Bonucci kæmi boltanum í netið eftir hornspyrnu og hamagang í teig Englendinga. Auk þess að jafna varð Bonucci elsti leikmaðurinn til þess að skora í úrslitum Evrópumótsins en hann er 34 ára og 71 daga gamall í dag. 

Ítalir urðu fyrir áfalli er þeirra sprækasti maður, Federico Chiesa, þurfti að fara af velli þegar lítið var eftir af leiknum. Þrátt fyrir að 6 mínútum væri bætt við venjulegan leiktíma tókst hvorugu liðinu að koma í veg fyrir að leikurinn færi í framlengingu. Lítið var um færi í framlengingunni og á endanum ljóst að knýja þyrfti fram úrslit í vítaspyrnukeppni. Fyrir leik kvöldsins hafði aðeins einn úrslitaleikur Evrópumótsins farið í vítaspyrnukeppni, árið 1976.

Ítalir tóku fyrstu spyrnuna. Domenico Berardi átti ekki í vandræðum með að skora og Harry Kane þrumaði svo boltanum í netið í fyrstu spyrnu Englendinga. Jordan Pickford kom Englendingum í kjörstöðu þegar hann varði aðra spyrnu Ítala frá Andrea Belotti og Harry Maguire bætti um betur þegar hann skoraði úr annarri spyrnu Englendinga.

Bonucci skoraði úr þriðju spyrnu Ítala og þá var komið að varamönnum Englands sem komu inn á rétt undir lok framlengingarinnar, Marcus Rashford og Jadon Sancho. Rashford skaut í stöngina eftir að hafa sent Donnarumma í vitlaust horn og Federico Bernardeschi skoraði úr næstu spyrnu Ítala.

Donnarumma varði því næst frá Sancho og þá þurfti Jorginho bara að skora úr fimmtu spyrnu Ítala. Pickford færði Englendingum hins vegar líflínu og varði boltann í stöngina. Þá var það á herðum hins 19 ára gamla Bukayo Saka að skora úr síðustu spyrnu Englendinga en aftur varði Donnarumma. Ítalir urðu þannig Evrópumeistarar eftir 3-2 sigur í vítaspyrnukeppni og ljóst að enn þurfa Englendingar að bíða eftir að fótboltinn komi heim.