Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hitabylgja ýtir undir skógarelda og heftir slökkvistarf

11.07.2021 - 02:38
Firefighters from the California Department of Forestry and Fire Protection's Placerville station battle the Sugar Fire, part of the Beckwourth Complex Fire, in Doyle, Calif., Friday, July 9, 2021. (AP Photo/Noah Berger)
 Mynd: AP
Stórhættuleg hitabylgja geisar í Vestur- og Suðvesturríkjum Bandaríkjanna og magnar upp mikla gróðurelda sem þar brenna víða. Hitinn gerir hvort tveggja í senn að ýta undir eldana og torvelda slökkvistörf. Hundruð slökkviliðsmanna berjast við gróður- og skógarelda í norðanverðri Kaliforníu og víðar.

 

Stærstur er eldur sem nefndur er Beckworth-Complex og varð til við samruna tveggja elda í og við Sierra Nevadafjöllin, sem báðir eru taldir hafa kviknað þegar eldingu laust niður í skraufþurran gróður. Hann teygir sig nú æ lengra í norðaustur frá Sierra Nevada og færist heldur í aukana fremur en hitt.

Stefnir í methita

54,4 stiga hiti mældist í þjóðgarðinum í Dauðadalnum í Kaliforníu á föstudag og allt útlit fyrir að þar yrði jafn heitt eða enn heitara á laugardag. Mesti hiti sem þar hefur mælst - og jafnframt mesti lofthiti sem mælst hefur á Jörðinni - er 57 gráður. Sú mæling er þó frá árinu 1913 og hafa veðurfræðingar dregið áreiðanleika hennar í efa.

Fólk er varað við því að mjög mikil hætta sé á hitaslagi og öðrum hitatengdum sjúkdómum og áföllum þar sem hitabylgjan varir lengi og hiti lækkar lítið em ekkert yfir nóttina.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV