Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kúbverska COVID-bóluefnið Abdala fær neyðarleyfi

epa09329212 Two nurses talk each other in a street, in Havana, Cuba, on 07 July 2021. Cuba faces a new spike in coronavirus rates, with the Matanzas province suffering the worst part and close to health facilities collapse.  EPA-EFE/Ernesto Mastrascusa
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Kórónaveirusmitum fjölgar hratt á Kúbu og hefur fjöldi sólarhringssmita tvöfaldast í eyríkinu á örfáum dögum. Nýtt sólarhringsmet var slegið þar í gær, sama dag og yfirvöld tilkynntu að neyðarleyfi hefði verið veitt fyrir dreifingu og notkun bóluefnisins Abdala, sem þróað var og framleitt á Kúbu. Abdala er fyrsta COVID-19 bóluefnið framleitt er í Rómönsku Ameríku sem fær slíkt leyfi.

Framleiðendur Abdala greindu frá því í síðustu viku að bóluefnið sýndi svipaða virkni og þau efni sem mest eru notuð annars staðar og veitti 92 prósentavernd gegn veirunni eftir þrjá skammta.

Framleiða sjálfir um 80 prósent allra bóluefna

Löng hefð er fyrir bóluefnaframleiðslu á Kúbu, sem búið hafa við viðskiptabann og margskonar hömlur á aðflutningum um áratuga skeið. Hafa Kúbverjar framleitt um 80 prósent allra bóluefna sem notuð eru í landinu frá því á níunda áratug síðustu aldar.

Löngu byrjað að bólusetja

Þar er nú unnið að þróun og framleiðslu fimm bóluefna gegn COVID-19 og þótt formlegt neyðarleyfi hafi fyrst verið veitt í gær var byrjað að bólusetja með Abdala í maí, og líka með efninu Soberana 2, sem fullyrt er að hafi nánast sömu virkni eftir þrjá skammta. Vonast er til að það fái líka formlegt neyðarleyfi á næstu vikum.

Um 6,8 af 11,2 milljónum Kúbverja hafa fengið minnst einn skammt af öðru hvoru bóluefninu en aðeins 1,6 milljónir hafa verið fullbólusettar með öllum þremur skömmtum. Alls hafa greinst rúmlega 224.000 COVID-19 tilfelli á Kúbu frá upphafi faraldurs og um 1.450 dauðsföll hafa verið rakin til sjúkdómsins.