Glóandi kvikuslettur og aukin gosvirkni í Geldingadölum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aukið líf er að færast í gosið við Fagradalsfjall á ný eftir talsvert hlé. Órói tók að aukast um tíu leytið í gærkvöld og hefur aukist nokkuð hratt og örugglega síðan. Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir þetta mesta óróa sem greinst hefur á gosstöðvunum síðan hann datt niður 6. júlí síðastliðinn.

Sívaxandi virkni hefur mælst í alla nótt og gutlar augljóslega vel á gígnum. Óróagraf Veðurstofunnar sýnir líka að haldi þróunin áfram í sama dúr er stutt í að hann nái sömu virkni og áður.

Slæmt skyggni er við gosstöðvarnar og ómögulegt að sjá það í gegnum sortann hvort hraun flæðir, en gusur hafa staðið upp úr gígnum öðru hvoru.

Strókar sem fréttamaður sá í útsendingu vefmyndavélar RÚV þegar eilítið rofaði til snemma á þriðja tímanum í nótt voru ekki ýkja háir, en þó greinilega gusur af rauðglóandi kviku. Það er því óhætt að fullyrða að allar fregnir af dauða ólíkindatólsins sem gígurinn í Geldingadölum er eru stórlega ýktar.