Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

70 prósent kjósenda VG á móti óbreyttu stjórnarmynstri

Mynd með færslu
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Fái meirihluti kjósenda VG einhverju ráðið á þetta stjórnarmynstur ekki framtíð fyrir sér eftir kosningarnar í haust. Mynd: RÚV
Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda Vinstri grænna er mótfallinn áframhaldandi stjórnarsamstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokk og Framsókn eftir kosningar í haust, samkvæmt skoðanakönnun sem Maskína gerði fyrir Vísi.is. Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eru hins vegar áfjáðir í að halda óbreyttu stjórnarmynstri.

70 prósent kjósenda VG mótfallin óbreyttri stjórn

Greint er frá niðurstöðum könnunarinnar á vísi.is. Þar kemur fram að einungis 29 prósent kjósenda Vinstri grænna vilja óbreytta stjórn eftir kosningar en rúmlega 70 prósent eru því mótfallin. Aftur á móti eru 88 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 81 prósent kjósenda Framsóknarflokksins á því að flokkarnir þrír eigi að starfa áfram saman að stjórn landsins. Í heildina tekið segjast 46,4 prósent vilja óbreytta stjórn en 53,6 prósent eru á móti.

Tekjuhæsta fólkið áhugasamast um óbreytt mynstur

Mest er andstaðan í Reykjavík, þar sem 58 prósentum svarenda hugnast ekki framhald á ríkisstjórnarsamstafi flokkanna þriggja. Þá er andstaðan áberandi meiri meðal tekjulágra en hinna sem meira hafa á milli handanna. Nær 70 prósent þeirra sem eru með mánaðartekjur undir 400.000 krónum eru á móti óbreyttu stjórnarmynstri, en stuðningurinn við það er að sama skapi mestur meðal þeirra sem mestu tekjurnar hafa, samkvæmt þessari könnun, eða 55 prósent. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV