Skuggamyndir Valborgar

Mynd með færslu
 Mynd: Valborg Ólafs - Silhouette

Skuggamyndir Valborgar

09.07.2021 - 16:15

Höfundar

Silhouette er fyrsta breiðskífa söngkonunnar/hljómsveitarinnar Valborgar Ólafs. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Ég man svo vel eftir Valborgu er hún tók þátt í Músíktilraunum árið 2012 með hljómsveitinni Lovely Lion (hvar meðlimur var líka Ásgeir nokkur Trausti). Sveitin var firnaörugg og flott og Valborg mjög örugg í framlínunni. Seinna átti hún eftir að vekja athygli í The Voice og í hitteðfyrra kom út stuttskífa, samnefnd söngkonunni.

Silhoutte er hins vegar kynnt sem hljómsveitarplata, og skýrir það áferðarmuninn á plötunum. Stuttskífan er nokk söngvaskáldaleg og línuleg í tón á meðan þessi plata er mun fjölbreyttari, sökum þess að allir sveitarmeðlimir komu að samningu laga. Hljómsveitina skipa annars Valborg, sem spilar á gítar og píanó og syngur, Orri Guðmundsson sem sér um slagverk, Baldvin Freyr Þorsteinsson leikur á gítar og Elvar Bragi Kristjónsson spilar á bassa, hljóðgervla og hljómborð.

Platan var tekin upp í Hafnarfirði, Ásólfsskálakirkju undir Eyjafjöllum og á bænum Holti þar sem Valborg er búsett ásamt Orra og börnum þeirra, hvar þau stunda búfjárstörf og reka gistiheimili. Bjarni Þór Jensson sá svo um að hljóðblanda og hljómjafna. Silhouette er til muna bjartari og poppaðri en fyrirrennarinn, á köflum a.m.k. Í henni er talsvert stílaflökt, sem er ekki endilega löstur. Heldur manni sperrtum. En stundum fær maður á tilfinninguna að blessuð platan viti ekki alveg hvað hún vill vera. Að því leytinu til hljómar hún dulítið eins og prufa, eins og verið sé að tilreyna mögulegar leiðir. Sumar þeirra eru æði spennandi verð ég að segja, ferðamenn öruggir um hvernig skuli feta þær. Aðrar eru í meira mistri og ógreinilegri. „Honestly“ rúllar verkinu vel af stað. Fínasta popplag með dassi af Cardigans, svei mér þá.

Það er atvinnumennskubragur á þessu, maður heyrir að lagasmiðir, hljóðfæraleikarar og söngvari eru ekki að gera þetta í fyrsta skipti. „Underwater“ er myrkara og dálítil OMAM-stemning yfir. Ólíkt opnunarlaginu en alveg jafn smekklega af hendi leyst. „Never Gonna Stop“ er hins vegar ósvikin poppnegla, ber með sér eitís-liti, bara glæsilegt. Mér finnst Valborg best í þessu skammlausa poppi. Það eru djassáhrif hérna, söngurinn mjög góður og fagmennska yfir öllu. Hljómar eins og lag frá hljómsveit sem hefur verið starfandi í sjö ár og er að gefa út fjórðu skífu sína – á alþjóðamarkaði. „Holiday“ er líka í þessum skammlausa skóla og gæðasmíð sömuleiðis.

Ég ætla að forðast að þylja upp lögin hérna, restin sveiflast á milli skammlausu áherslanna og ögn dekkri. Það er vigt í þeim flestum, vel til sniðnar poppsmíðar sem er haldið uppi af þéttri spilamennsku og karakterríkri söngrödd. „Freefall“ reyndar heldur of nálægt OMAM fyrir minn smekk. Nei, þetta er ekki alveg fullkomið þó hörkugott sé það. Allt í allt, afar burðugt verk. Ég kvartaði aðeins yfir þessum mismunandi áherslum í upphafi en á leiðarenda verður mér ljóst að það er svo gott sem tuð. Magnað að hægt sé að kokka upp svona kræsingar í kirkju undir Eyjafjöllum. Það skyldi þó aldrei vera að Valborg og Orri neyðist til að bregða búi ef fleiri eyru komast í þetta?