Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skila þurfi frelsinu sem fólk afsalaði sér

09.07.2021 - 21:37
Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir / Ljósmynd
Upplifun Borgarstjórnar er sú að skila þurfi aftur því frelsi sem borgarbúar afsöluðu sér í byrjun kórónuveirufaraldursins. Þetta sagði Alexandra Briem forseti Borgarstjórnar í umræðu um opnunartíma skemmti- og veitingastaða í kvöldfréttum RÚV í kvöld. 

Mikið hefur mætt á lögreglu og bráðamóttöku um liðnar helgar. Álagið hefur aukist til muna eftir að samkomutakmörkunum var aflétt og líf færðist í skemmtanalíf miðbæjarins. Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir löggæslu í miðborginni komna á sama stað og fyrir faraldur.

„Við drógum verulega úr löggæslunni í miðborginni á meðan að á faraldrinum stóð en nú erum við komin með sama viðbúnað og fyrir COVID,“ sagði Jóhann Karl og ræddi svo hugmyndir um styttri opnunartíma.

„Það sem við erum að tala um er að fólk komi fyrr í miðborgina og fari þá fyrr heim. Í ljósi þeirra kannanna sem við höfum og þeirrar tölfræði sem við eigum, þá er það að því fleiri klukkutímar sem líða inn í nóttina því meira eykst ofbeldið,“ sagði Jóhann Karl.

Alexandra sagði að það væri alltaf í boði að ræða málin við borgina. „Okkar upplifun er sú að við þurfum að skila fólki aftur því frelsi sem það afsalaði sér vegna almannahagsmuna þegar COVID byrjaði. Fólk má ekki upplifa sem svo að haldið sé aftur af hlutunum en auðvitað er í boði að taka samtalið. Ég held samt að það sé mikilvægt að við hlustum á það hvernig lífi fólkið í borginni vill lifa. Það sé hlutverk þess opinbera að sjá til þess að innviðir eins og sjúkrahús og lögregla. Innviðir sem styðja við það líf sem fólk vill lifa séu í boði og til staðar,“ sagði Alexandra Briem forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.

Andri Magnús Eysteinsson