Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

HK með mikilvægan sigur í botnbaráttuleik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

HK með mikilvægan sigur í botnbaráttuleik

09.07.2021 - 21:07
HK gerði góða ferð í Árbæinn í kvöld þegar liðið lagði Fylki af velli í efstu deild karla í fótbolta. Fylkir náði forystunni í fyrri hálfleik en tvö mörk HK í seinni hálfleik tryggðu þeim þrjú nauðsynleg stig í botnbaráttunni.

Lokaleikurinn í 11. umferð í efstu deild karla í fótbolta fór fram í kvöld þegar Fylkir tók á móti HK. Leikurinn átti upphaflega að fara fram fyrir tæpri viku síðan en eftir að smit kom upp í leikmannahópi Fylkis var leiknum frestað. Báðum liðum hefur gengið brösulega í deildinni en fyrir leikinn í kvöld var Fylkir í 9. sæti deildarinnar en gestirnir úr Kópavogi í 11. sæti. 

Fylkir var nálægt því að ná forystunni á 25. mínútu þegar HK-ingar björguðu á línu eftir skot frá Djair Parfitt-Williams. Skömmu síðar fékk Fylkir aukaspyrnu og Daði Ólafsson skoraði frábært mark beint úr spyrnunni. Þetta var eina mark fyrri hálfleiks og Fylkir því 1-0 yfir í hálfleik. 

Bæði lið byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti en það var á 60. mínútu sem Birnir Snær Ingason jafnaði leikinn. Birkir Valur Jónsson átti þá góða fyrirgjöf á Birni Snæ sem hamraði boltann í netið af stuttu færi. Tíu mínútum eftir mark HK munaði minnstu að Fylkir næði aftur forystunni. Fylkir átti góða skyndisókn sem endaði með skoti frá Orra Hrafni Kristjánssyni en aftur var Birkir Valur réttur maður á réttum stað og hann bjargaði á línu. 

Aðeins þremur mínútum eftir að HK-ingar björguðu þeir á línu fengu þeir aukaspyrnu á vallarhelmingi Fylkis. Ásgeir Marteinsson tók aukaspyrnuna og sendi boltann inn á teig þar sem Martin Rauschenberg náði að taka boltann niður og setja hann í netið. Gestirnir því komnir með forystuna þegar rúmar 15 mínútur voru til leiksloka.

Mörkin urðu ekki fleiri og gestirnir því með mikilvægan útisigur. HK er áfram í 11. sæti deildarinnar en nú með níu stig, eða aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni.