Djokovic mætir Berrettini í úrslitum

epa09334506 Novak Djokovic of Serbia celebrates after winning his men's semi final match against Denis Shapovalov of Canada at the Wimbledon Championships in Wimbledon, Britain, 09 July 2021.  EPA-EFE/NEIL HALL   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Djokovic mætir Berrettini í úrslitum

09.07.2021 - 18:45
Novak Djokovic hefur tækifæri á að verja titil sinn á Wimbledon mótinu í tennis eftir að hann vann Denis Shapovalov í undanúrslitum í kvöld. Þar mætir hann hinum ítalska Matteo Berrettini.

Það var hart barist á Wimbledon mótinu í kvöld þegar Djokovic mætti hinum 22 ára gamla Denis Shapovalov. Báðir keppendur sýndu magnaða takta en eftir harða baráttu náði Djokovic að knýja fram sigur, 7-6 (7-3), 7-5 og 7-5. 

Djokovic hefur lengi verið einn sigursælasti tennis keppandi í heimi en úrslitin á sunnudag verða hans þrítugustu á risamóti. 

Fyrsti Ítalinn í úrslitum

Í hinni viðureigninni í undanúrslitum varð Matteo Berrettini fyrsti Ítalinn til að komast í úrslit í einliðaleik karla þegar hann sigraði Hubert Hurkacz. Berrettini er í sjöunda sæti heimslistans og hann hafði betur gegn Hurkacz með því að vinna 6-3, 6-0, 6-7(3-7) og 6-4. 

Hurkacz kom mörgum á óvart á mótinu en Pólverjinn sló meðal annars Roger Federer úr leik í 8-manna úrslitum mótsins. Hurkacz lenti fljótlega í vandræðum gegn Berrettini og sigur Ítalans var í raun aldrei í hættu.