Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sveiflur í gosvirkni en stöðugt hraunflæði úr gígnum

Mynd með færslu
 Mynd: uppl.fundur almannavarna
Verulega hefur dregið úr gosvirkni í eldgosinu á Reykjanesskaga á undanförnum dögum. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að virknin nú sé mun minni en verið hefur að jafnaði í sumar.

„Það náttúrulega breyttist fyrir tíu dögum eða svo og fór í þennan óstöðuga ham, þar sem það hefur rokið upp með töluverðum látum en verið svo mjög kyrrt á milli. Nú er komið kyrrtímabil í rúma tvo sólarhringa þar sem er mjög lítil virkni og síðustu tíu dagar eru svona heldur rólegri heldur en var alla jafna,“ segir Magnús Tumi.

Er gosinu að ljúka?

„Það er voðalega erfitt um að segja, og ekkert hægt að segja um það. Því það geta verið sveiflur í virkninni. En það lítur út fyrir að það sé heldur að hægja á því. Það kæmi ekkert á óvart ef það væri, því flest gos á þessu svæði verða ekki mikið stærri en þetta. En það er hins vegar engu hægt að slá föstu á þessari stundu.“

Hvað með hraunflæði?

„Það hefur ekki verið gerð flugmæling síðan á laugardag fyrir nærri tveimur vikum, en við erum þó með merki í Meradölum sem við getum skoðað. Það sýnir að það hefur bæst töluvert í Meradali á þessum síðustu dögum þannig það er ekkert hægt að fullyrða að hraunflæðið sé eitthvað mikið minna heldur en verið hefur,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.