Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skoðanakönnun til að athuga sameiningarvilja

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Tillaga um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu var felld í byrjun júní. Tvö þeirra, Húnavatnshreppur og Blönduósbær, hafa síðan rætt sín á milli um að fara í viðræður um sameiningu. Skoðanir eru þó skiptar hversu hratt eigi að fara í viðræðurnar.

Vilji íbúa kannaður

Á Blönduósi var vilji íbúa sveitarfélagsins skýr um sameiningu. Í Húnavatnshreppi eru menn varkárari. Sveitarstjórn hreppsins felldi á fundi að óska eftir formlegum viðræðum við Blönduósbæ og kjósa síðan um sameiningu samhliða alþingiskosningum í haust.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur nú samþykkt að gerð verði skoðanakönnun meðal íbúa hreppsins þegar landsmenn ganga til alþingiskosninga 25. september. Þannig segist sveitarstjórnin vilja tryggja sér umboð frá íbúum sveitarfélagsins til að fara í sameiningarviðræður við Blönduósbæ.

Íbúarnir munu svara spurningunni: „Vilt þú að Húnavatnshreppur fari í sameiningarviðræður við Blönduósbæ?“

Ef niðurstöður skoðanakönnunar sýna að meirihluti íbúa sveitarfélagsins vill fara í formlegar sameiningarviðræður, mun sveitarstjórn leggja allt kapp á að ljúka sameiningarviðræðum og kosningu eins hratt og hægt er, eigi síðar en í janúar 2022,“ segir í bókun meirihluta sveitarstjórnar Húnavatnshrepps.