Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýtilkomin hætta á alvarlegum gróðureldum

08.07.2021 - 08:39
Mynd: Jóhannes Jónsson / Ríkisútvarpið ohf
Hætta á alvarlegum gróðureldum er tiltölulega nýtilkomin, en nú er svo komið að fjöldi sumarhúsa gæti brunnið í gróðureldum.

Þetta segir Halldór Björnsson, loftslagsfræðingur og hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofunni, en hann var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun.

Gróðureldar gerðu landsmönnum lífið leitt í vor og stutt er síðan kviknaði í gróðri á Akureyri. „Sumarhúsasvæði eru oft orðin mjög uppgróin,“ segir Halldór.

Á Morgunvaktinni ræddi Halldór einnig miklar öfgar í veðurfari og þá hitabylgju sem riðið hefur yfir í Norður-Ameríku. Hitamet féllu í hrönnum í Kanada í lok síðasta mánaðar og mældist mesti hiti í landinu frá upphafi, 49,6 gráður í borginni Lytton í Bresku Kólumbíu.

„Þetta er afkáralega heitt,“ segir Halldór. Þegar hitamet falla eru það jafnan brot úr gráðu, en í þessu tilfelli var hitametið bætt um rúmar fjórar gráður.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV