Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Meintir tilræðismenn ýmist handteknir eða drepnir

epa09329349 View of a mural of the assassinated President Jovenel Moise in Port-au-Prince, Haiti, 07 July 2021. The President of Haiti Jovenel Moise, was assassinated on 07 July by armed men who carried out an attack on his residence in the early morning in the Pelerin neighborhood of Port-au-Prince, said interim prime minister, Claude Joseph.  EPA-EFE/JEAN MARC HERVE ABELARD
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Lögregla á Haítí segir að tveir erlendir málaliðar hafi verið teknir höndum og fjórir til viðbótar skotnir til bana, innan við sólarhring eftir að Jovenel Moise, forseti Haítí, var myrtur á heimili sínu í Port-au-Prince. Í tilkynningu lögreglu segir að viðamiklar lögregluaðgerðir vegna morðsins á forsetanum standi enn yfir í höfuðborginni.

„Fjórir málaliðar voru drepnir, tveir voru gripnir og eru í okkar vörslu. Lögreglumennirnir sem teknir voru í gíslingu hafa verið frelsaðir,“ sagði Leon Charles, ríkislögreglustjóri Haítí, í sjónvarpsávarpi. Hann sagði lögreglu enn vera að elta og berjast við fleiri grunaða tilræðismenn og munu halda því áfram þar til þeir hafi annað hvort verið handteknir eða felldir. 

Jovenel Moise var myrtur á heimili sínu um klukkan eitt aðfaranótt miðvikudags. Kona hans, Martine, særðist í árásinni og var henni flogið til Miami í Flórída þar sem hún nýtur aðhlynningar á sjúkrahúsi.

Allt með kyrrum kjörum 

Claude Joseph, forsætisráðherra, fer með öll völd í landinu til bráðabirgða, en til stóð að hann léti af embætti í þessari viku. Hann reyndi að fullvissa landsmenn um að lögregla og her hefði fulla stjórn á málum og engin hætta á ferð fyrir almenna borgara.

AFP-fréttastofan hefur eftir sjónarvottum að allt hafi verið með kyrrum kjörum í Port-au-Prince á miðvikudag og ekki að sjá að öryggisgæsla hefði verið aukin. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman til fundar í dag, fimmtudag, vegna tilræðisins við Moise.

Óljóst hverjir voru að verki

Forsetinn var afar umdeildur maður sem hefur að mestu stjórnað landinu með tilskipunum eftir að þingkosningum var frestað 2018 vegna margvíslegs ágreinings. Háværar kröfur hafa verið uppi um afsögn hans allar götur síðan.

Ekkert hefur þó komið fram um það enn, hver eða hverjir það eru sem réðu honum bana umfram fullyrðingar um að „erlendir málaliðar sem töluðu ensku og spænsku“ hafi verið að verki. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV