Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lúxushótel fyrir lunda á Borgarfirði eystra

08.07.2021 - 17:31
Mynd: Elín Elísabet og Rán Flygenri / Elín Elísabet Einarsdóttir og
Markhópur hótelstýranna Elínar Elísabetar Einarsdóttur og Ránar Flygenring hefur ekki fengið mikla athygli í gegnum tíðina en listakonurnar hafa sett á fót hótel fyrir lunda á Borgarfirði eystra. Að þeirra sögn er hótelið rökrétt framhald af lundabúðinni sem þær standsettu á sömu slóðum í fyrra.

Elín Elísabet Einarsdóttir var gestur Leifs Haukssonar og Gígju Hólmgeirsdóttur í Sumarmálum og sagði frá nýja verkefninu þeirra, Hótel Lundabúðinni.

„Í fyrra stofnuðum við fyrstu lundabúðina sem er staðsett í miðju lundavarpi og rannsökuðum þar samband manns og lunda og fannst rökrétt framhald að fara í hótelbransann og stofna lundahótel hinum megin við höfnina,“ segir Elín.

Hótelið samanstendur af tuttugu holum og samkvæmt Elínu þarf góð lundahola að uppfylla ákveðin skilyrði, hún þarf til dæmis að vera allt að tveir metrar að dýpt og að sjálfsögðu er salerni á hverri holu. Þær munu einnig bjóða upp á morgunverðarhlaðborð sem höfðar til gestahópsins en á því verður meðal annars boðið upp á sardínur og síld.

Mynd með færslu
 Mynd: Elín Elísabet og Rán Flygenri
Hótelstýrurnar Elín Elísabet og Rán bjóða alla fugla velkomna

Þó svo að hótelið sé hugsað fyrir lunda og aðra sjófugla þá eru mennskir gestir boðnir velkomnir á hótelið þó þeim sé ekki boðið að gista. „Þeir geta fengið sér sardínur og kynnt sér lundann,“ segir Elín. „Við gerum þetta fyrst og fremst í þágu lundans, mennsku gestirnir eru aukaatriði, ekki okkar helsti markhópur.“

Hún segir að það sé þó mikill áhugi fyrir hótelinu af hálfu mennskra gesta og margir hafa litið við og spurt út í starfsemi hótelsins. Þær Rán nýti þá tækifærið og fræði fólk um lundann, að hann sé á válista og stofninn búinn að minnka um helming á 17 árum.

Hún segir Borgarfjörð eystra jafnframt vera fullkominn stað fyrir lundahótel því hólminn er þéttsetinn og lundinn er ekki veiddur á Borgarfirði eystra sem gerir allar aðstæður til fyrirmyndar. Það hafi þó borið á því að næturgestir af sauðfjárkyni reyni að gera sig heimkomna á svæðinu en mögulega þurfa hótelstýrurnar að bæta öryggisgæslu.

Vekja athygli á stöðu lundans

Markmiðið með verkefninu er þó ekki eingöngu að bjóða upp á lúxuslundagistingu heldur að varpa ljósi á þá staðreynd að lundinn á undir högg að sækja, en meginþorri lundastofnsins hefur varpstöðvar á Íslandi.

„Það hefur ýmislegt verið erfitt fyrir lundann, það eru loftslagsbreytingar og hlýnun sjávar og þá eru búsvæðin að færast norðar og það varð hrun í sandsílastofninum sem var aðalfæða lundans. Þá finnst okkur full ástæða til að vekja athygli á hans málefni,“ segir Elín.

Þær Rán eru miklar fuglaáhugakonur og fannst ekki nógu gott að lundinn væri orðinn andlit fjöldaframleiddra minjagripa og ferðamennsku. „Okkur fannst hann eiga betra skilið,“ segir Elín.

Áhugasamir geta fylgst með ævintýrum hótelstýranna á instagram en einnig má sjá glitta í hótelið á vefmyndavél Borgarfjarðarhafnar líkt og komið er inn á í viðtalinu í spilaranum hér að ofan.