Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dökkt útlit fyrir stjórnarherinn í Afganistan

Liðsmenn Talibana í Afganistan. - Mynd: EPA / EPA FILE
Talibanar hafa á undanförnum dögum og vikum lagt undir sig stór svæði í Afganistan. Þeir hófu sókn í apríl þegar brottför fjölþjóðaherliðs hófst frá landinu. Þeir hafa sótt mjög í sig veðrið eftir að Bandaríkjamenn hófu að flytja hermenn sína á brott. Stjórnarherinn virðist einkum sakna stuðnings bandaríska flughersins. Bandaríkjamenn yfirgáfu mikilvægustu herstöð sína á Bagram flugvelli í skjóli nætur og án þess að láta afganska stjórnarherinn vita. Málið var rætt á Morgunvakt Rásar-1.

Svart útlit fyrir afganska stjórnarherinn

Útlitið í Afganistan er sannarlega ekki gott fyrir stjórnina í Kabúl, Bandaríkjamenn ákváðu meðan Donald Trump var forseti að kalla her sinn heim frá landinu og þegar núverandi forseti, Joe Biden, staðfesti þá ákvörðun ákváðu bandamenn Bandaríkjanna í NATO að kalla sínar hersveitir heim.

Talibanar í mikilli sókn

Talibanar, sem stjórnuðu Afganistan frá 1996-2001, eru í mikilli sókn og stjórnarherinn virðist vanbúinn til að veita þeim öflugt viðnám. Þó að fjölþjóðaliðið hafi ekki verið mjög fjölmennt undir það síðasta, um 2500-3500 bandarískir hermenn og í allt innan við 10 þúsund, þá var táknrænt hlutverk miklu mikilvægara, talibanar virðast líta á brottför þeirra núna sem upplagt tækifæri til að láta til skarar skíra og þeir hafa verið að gera nokkrar harðar árásir og náð yfirráðum í mörgum héruðum.

Löng forsaga átakanna í Afganistan

Forsaga átakanna í Afganstan er löng, landið hefur aldrei verið friðsælt ríki, þarna búa margar þjóðir og þjóðarbrot, mörg tungumál töluð, íbúar sem nú eru um tæplega 40 milljónir eiga það sameiginlegt að vera múslímar, en það er margt annað sem sundrar þá. Landinu var stjórnað af talibönum frá 1996, talibanar eru öfga-múslímar og stjórn þeirra sannkölluð ógnarstjórn.

Innrás Bandaríkjamanna eftir 11. september

Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Ástæðan fyrir innrás Bandaríkjamanna var að  talibanar höfðu leyft Osama-bin Laden og hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda að hafa aðsetur og búðir í landinu. Bandaríkjamenn steyptu stjórn talibana, en tókst aldrei tekist að vinna fullnaðarsigur á talibönum og þeir hafa ráðið stórum hlutum landsins, stjórnin í Kabúl hefur ráðið stærri bæjum og borgum en í sveitum landsins hafa talibanar alltaf haft mikil áhrif.  

Trump ákvað brottflutning

Bandaríkjamenn ákváðu meðan Donald Trump var forseti að kalla her sinn heim frá landinu. Trump stjórnin samdi um þetta við talibana og þegar núverandi forseti, Joe Biden, staðfesti þá ákvörðun ákváðu bandamenn Bandaríkjanna í NATO að kalla sínar hersveitir heim.
 

Áfall fyrir baráttuanda stjórnarhersins

Brottflutningurinn virðist vera verulegt áfall fyrir baráttuanda afganska stjórnhersins, fréttir bárust af því að eitt þúsund hermenn hefðu flúið til grannríkisins Tadsíkistans. Þá herma fregnir að margir aðrir hafi hlaupist undan merkjum og veruleg spurning er hvort afganski herinn, sem telur 300 þúsund manns, hafi burði til að standast talibönum snúning.