Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Varið víti og góð endurkoma heldur vonum Vals á lífi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Varið víti og góð endurkoma heldur vonum Vals á lífi

07.07.2021 - 19:06
Valsmenn mættu króatíska liðinu Dinamo Zagreb í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Síðustu mínútur leiksins voru fjörugar hjá Valsmönnum en lokatölur þrátt fyrir það 3-2 fyrir Zagreb.

Króatíumeistararnir í Dinamo Zagreb komust alla leið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð og unnu meðal annars Tottenham í 16-liða úrslitum. Það var því ljóst að verkefnið var strembið fyrir Valsmenn en króatíska liði var þó án nokkurra leikmanna sem léku með landsliði Króata á EM.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Valsmenn sem lentu undir strax á 8. mínútu þegar Arijan Ademi skoraði mark eftir hornspyrnu. Á 39. mínútu tók Sebastian Hedlund Duje Cop niður í teig Valsmanna og vítaspyrna var dæmd. Lovro Majer skoraði af punktinum og staðan 2-0 í hálfleik.

Á 72. mínútu skoraði Ademi sitt annað mark eftir skyndisókn, 3-0. Á 81. mínútu braut Christian Köhler svo klaufalega á leikmanni Zagreb inni í teig eftir hornspyrnu og annað víti dæmt á Valsmenn. Að þessu sinni varði Hannes Þór hins vegar spyrnuna sem Ademi tók.

Stuttu síðar fengu Valsmenn svo vítaspyrnu í kjölfar þess að Guðmundur Andri Tryggvason var felldur inni í teig. Danijel Zagorac varði skotið sem Kristinn Freyr Sigurðsson tók en Kristinn náði sjálfur frákastinu og skallaði boltann í netið. Mínútu síðar skoraði Andri Adolphsson svo annað mark fyrir Valsmenn eftir stórkostlega furðuleg mistök í vörn Zagreb.

Lokatölur því 3-2 og von Valsmanna enn á lífi fyrir seinni leik liðanna á þriðjudag. Rétt er að taka fram að reglan um útivallarmörk hefur verið lögð niður í keppnum UEFA og því er það aðeins markatalan úr leikjunum tveimur sem gildir.  

Þrjú íslensk lið, FH, Stjarnan og Breiðablik, verða í eldlínunni á morgun í 1. umferð í nýrri Sambandsdeild UEFA. Tapi Valur einvíginu við Zagreb munu þeir fara beint í 2. umferð undankeppni þeirrar deildar.